Dagskrá í Duushúsum á sjómannadaginn
Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur með stuttri dagskrá í Duushúsunum eins og verið hefur undanfarin ár. Dagskráin er unnin í samstarfi nokkurra aðila og hefst með sjómannamessu á vegum Keflavíkurkirkju. Sr. Skúli S. Ólafsson, Einar Gunnarsson og félagar úr kór Keflavíkurkirkju sjá um messuna og ýmis lög verða leikin og sungin með þátttöku gesta.
Hafsteinn Guðnason úr stjórn Bátafélagsins ávarpar samkomuna og gamlir sjóhundar segja sjóarasögur. Sigrún Ásta Jónsdóttir safnstjóri Byggðsafns Reykjanesbæjar segir frá nýrri sjóminjasýningu sem opnar þessa helgi og heldur utan um dagskrána.
Í lok dagskrár verður að venju lagður krans við minnismerki sjómanna fyrir tilstilli Skipstjóra- og stýrimannafélags Suðurnesja , Vélstjórafélags Suðurnesja og Verkalýðs- og sjómannafélags Suðurnesja. Eftir dagskrána er boðið uppá fiskisúpu á Kaffi Duus gegn vægu gjaldi.