Dæmisögur úr sumarlandinu
Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar.
Á sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, Dæmisögur úr sumarlandinu, er að finna úrval nýlegra olíumálverka eftir Karólínu Lárusdóttur, sem fengnar eru að láni frá einkaaðilum. Sérstök áhersla er lögð á stærri verk listakonunnar, sem að jafnaði eru ekki eins aðgengileg og minni málverk hennar, grafíkmyndir og vatnslitamyndir.
Það „sumarland“ sem hér um ræðir er það forðabúr minninga sem listakonan hefur unnið upp úr „dæmisögur“ sínar, sem fjalla framar öðru um mannlífið í Reykjavík á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta var mikill umbrotatími í íslensku þjóðfélagi, velmegun eftirstríðsáranna hafði veruleg áhrif á fjölskyldu og hegðunarmynstur fyrstu „alvöru“ borgarbúa í sögu landsins. Málverk Karólínu segja sögur af þessu fólki, byggðar bæði á atburðum sem tengjast hennar eigin fjölskyldu, sem lék stórt hlutverk í bæjarlífinu um margra áratuga skeið, og gömlum ljósmyndum. Um leið veltir hún því upp hvort þessar sögur feli ekki í sér marktækar lýsingar á eðlisþáttum íslenskrar þjóðar, t.a.m. þrautseigju, fálæti og nýjungagirni. Þótt margar þessara mynda einkennist af alvöruþunga, er einnig að finna í þeim græskulausa fyndni og djúpan mannskilning.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, sem er höfundur bókar um listakonuna sem kom út á síðasta ári. Dæmisögur úr Sumarlandinu stendur í sýningarsal Listasafnsin í Duuhúsum til 17. ágúst.
Opið verður virka daga kl. 12:00 -17:00, og um helgar frá 13:00-17:00. Aðgangur er ókeypis.