Courtyard by Marriott fær Græna lykilinn
– er leiðandi gæðastaðall á sviði umhverfisábyrgðar í ferðaþjónustu.
Courtyard by Marriott hótelið í Reykjanesbæ fékk nýlega afhenta Green Key vottun en græni lykillinn er leiðandi staðall á sviði umhverfisábyrgðar í ferðaþjónustu.
Green Key er alþjóðlega viðurkennt umhverfisvottunarkerfi fyrir ferðaþjónustuna og státar af því að vera útbreiddasta alþjóðlega umhverfisviðurkenningin sem snýr að hótelum og gististöðum. Til að fá Græna lykilinn verða hótel að uppfylla strangar umhverfiskröfur og viðmið sem taka bæði til starfseminnar sem slíkrar, fræðslu og samskipta og tekur þannig til ábyrgðar fyrirtækisins gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Græni lykillinn leggur áherslu á að minnka umhverfisáhrif rekstrar, draga úr rekstrarkostnaði og stuðla að sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar.
Á heimasíðu Green Key International kemur fram hvaða skref hótel þurfa að taka til þess að hljóta Green Key vottun. Skrefin eru meðal annars að auka flokkun úrgangs, bjóða upp á lífræn matvæli eða matvæli úr nærsamfélaginu, nota umhverfisvottuð aðföng, fræða starfsfólk og stuðla að forvörnum svo starfsemin mengi sem minnst.
„Með því að fá Green Key vottunina erum við að fá samstarfsaðila okkar með í áttina að sjálfbærri ferðaþjónstu. Það gleður mig að sjá ferðamannaiðnaðinn samtaka í að auðvelda viðbrögð við áskoruninni sem loftslagsbreytingarnar eru. Green Key er fyrsta skrefið sem mun hjálpa hótelinu okkar og nærumhverfi að hefja sjálfbærni vegferð sína með gagnsæi og skýrum línum sem og að verða við ósk viðskiptavina um sjálfbæra valmöguleika á ferðalögum sínum. Þessi vottun færir okkur á Courtyard by Marriott Reykjavik Keflavik, ásamt eiganda okkar og öllum ferðamannaiðnaðinum hérlendis, nær lokamarkmiðinu sem er Net Zero,“ segir Hans Prins, hótelstjóri.