Byrjuðu að vinna að jólaplötu í júní
Með jólin í hjarta mér er ný jólaplata úr smiðju Gunnars Inga Guðmundssonar og Rakelar Pálsdóttur en söngkonan Rakel syngur öll fimm lög plötunnar. Platan kom út 24. nóvember sl. og er plata vikunnar á Rás 2 vikuna 12.-16. desember. Gunnar átti mörg lög „á lager“ og því ákvað hann að slá til og búa til plötu. „Það kom upp sú pæling að henda í eina plötu með öllum þeim lögum sem til voru, með það að markmiði að gera plötu með nýjum íslenskum, frumsömdum jólalögum.“
Gunnar samdi lögin á plötunni en söngkonan Rakel flytur lögin. Ásamt því að semja lögin spilar Gunnar á bassa. Upptökur fyrir plötuna hófust í júní og stóðu fram í október. „Við fórum í Stúdíó Bambus til Stefáns Arnar Gunnlaugssonar og tókum upp grunn af öllum lögunum sem við byggðum ofan á og útkoman er mjög góð,“ segir Gunnar.
Gunnar kemur frá Reykjanesbæ, honum þykir gaman að fást við að semja og gera jólalög en hann hefur samið lög fyrir þekkt nöfn á borð við Arnar Dór og Sjonna Brink en hann samdi einnig Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja árið 2003 fyrir Skítamóral. Þá segist Gunnar nú þegar vera byrjaður að vinna að nýrri plötu með lögum í kvikmyndastíl en hann langar að reyna fyrir sér á þeim vettvangi.
Gunnar segir plötuna geta komið fólki í jólaskapið. „Platan skapar okkur ákveðna sérstöðu þar sem á henni eru ný íslensk frumsamin jólalög, hún er án efa hugljúf og notaleg jólaplata sem kemur fólki í gott jólaskap.“
Rakel heldur jólatónleika á Nauthól þann 21. desember næstkomandi kl 20:00 en með henni spila Gunnar Ingi, Birgir Þóris, Bent Marinós og Þorvaldur Halldórsson. Á dagskránni verða öll lög plötunnar ásamt uppáhalds jólalögum Rakelar.
Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni hér:
https://open.spotify.com/album/1ZXG5hA6XCzfcufKoRrwTU