Byrjaði að flúra sjálfa sig heima í sófanum
-Dagný Draupnisdóttir starfar sem nemi á húðflúrstofunni Tattoo & Skart
Það hafði alltaf verið draumur Dagnýjar Draupnisdóttur að starfa sem húðflúrari, en frá því í febrúar síðastliðnum hefur hún unnið sem nemi á húðflúrsstofunni Tattoo & Skart í Hafnarfirði.
„Ég var á listnámsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tók svo tvo áfanga í Myndlistarskólanum í Reykjavík samhliða vinnu, sem var mjög gaman. Ég hef meira og minna alltaf verið að teikna, en áhuginn fyrir því að húðflúra varð meiri og meiri með árunum,“ segir Dagný.
Áður en hún hóf störf á Tattoo & Skart hafði hún keypt sér tattoo-vél til að geta æft sig sjálf. „Ég ákvað að það væri bara best að byrja að æfa mig á sjálfri mér. Ég var bara í sófanum heima og gerði nokkur lítil húðflúr á lappirnar á mér. Ég er rosalega hvatvís þannig ég kýldi bara á þetta,“ segir hún. „Það er samt hrikalega vont að húðflúra sjálfa sig, ég mæli ekki með því,“ bætir hún við og hlær.
Dagný er sjálf með þó nokkur húðflúr og hafði verið í flúrum hjá Ástþóri, sem starfar einnig á Tattoo & Skart. „Það var alltaf svo gott að koma á stofuna og ég var aðeins farin að þekkja fólkið þar. Andrúmsloftið þar er svo þægilegt. Ástþór hvatti mig svo til að sækja um og ég ákvað að senda á Svan, sem er eigandi stofunnar. Hann heyrði svo í mér nokkrum dögum síðar, ég mætti í viðtal og byrjaði daginn eftir.“
Fyrstu vikurnar í starfinu voru ótrúlega fínar og lærdómsríkar en þar fylgist Dagný vel með hinum húðflúrurunum og lærði af þeim. „Smátt og smátt fékk ég svo að taka að mér lítil flúr og byrjaði þá bara mjög hægt. Þann tíma var ég líka mikið að teikna og bara að fylgjast hvernig þetta allt saman virkar.“
Á meðan Dagný var að byrja að feta sig áfram við húðflúr buðu vinir hennar sig fram og leyfðu henni að húðflúra sig. „Ég flúraði vini mína sem eru kærulausir og alveg sama hvernig þetta kæmi út frítt til þess að æfa mig.“
Í dag er hún svo farin að gera eitt og eitt stærra flúr og segir það ótrúlega gaman. „Það er reyndar alltaf gaman að flúra.“