Býður heimsendingarþjónustu á námskeiðum og fyrirlestrum
Birgitta Jónsdóttir Klasen náttúrulæknir er óhrædd við að koma með nýjungar inn á markaðinn. Hún býður í dag upp á nokkurs konar heimsendingarþjónustu á námskeiðum. Með öðrum orðum, Birgitta kemur í saumaklúbba og heldur fyrirlestra fyrir konur. Einnig veitir Birgitta svokallaða heimilisráðgjöf sem nýtist foreldrum vel í því hraða þjóðfélagi sem við búum.
Birgitta segir að í saumaklúbbunum ræði hún um næringu og heilsu og einfaldar og öruggar leiðir til að gera hlutina rétt. Fyrirlesturinn eða námskeiðið tekur rétt rúma klukkustund og til þessa hefur hún haldið námskeiðið fyrir hópa af stærðinni 7-14 manns. Í kjölfar fyrirlestursins vakna oft spurningar og segist Birgitta reyna að svara þeim af bestu getu.
Námskeiðin og fyrirlesturinn er Birgitta líka að bjóða eldri borgurum. Eldri hjón koma þá nokkur saman, karlarnir taka í spil en konurnar hlýða á fyrirlestur um mikilvægi góðrar heilsu og næringar, en Birgitta hefur tekið saman haldgott efni um málið.
Þá er Birgitta einnig að bjóða nokkurs konar heimilisráðgjöf fyrir fjölskyldur sem lifa í hröðu samfélagi nútímans. Ráðgjöfin kemur inn á marga þætti í heimilislífinu, s.s. varðandi svefn- og matarvenjur barna og í raun almennt hvernig má gera fjölskyldulífið ánægjulegra og hlýlegra.
Allar nánari upplýsingar veitir Birgitta Jónsdóttir Klasen í síma 847 6144 eða á [email protected]