Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 30. janúar 2003 kl. 13:14

Buðu tíu kameldýr í dúxinn úr FS!

Ólafía Sigurjónsdóttir er 19 ára Keflvíkurmær sem er nýútskrifuð sem dúx úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Foreldrar hennar eru Guðbjörg Aðalbergsdóttir og Sigurjón Jónsson. Ólafía stóð sig frábærlega í skólanum og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir árangur sinn í dönsku, ensku, þýsku og fyrir árangur sinn í líffræði og efnafræði. Auk þess fékk Ólafía viðurkenningu frá Eddu - miðlun og útgáfu fyrir góðan árangur í íslensku. Hún fékk einnig viðurkenningu frá Sparisjóðnum í Keflavík fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi auk þess að fá viðurkenningar fyrir góðan árangur í íslensku, erlendum tungumálum og í stærðfræði og raungreinum. „Auðvitað er ég ánægð með þetta. Ég bjóst alveg við einhverjum viðurkenningum en ekki svona mörgum“, segir Ólafía í viðtali við Víkurfréttir.Hún tók þann pól í hæðina að útskrifast á þremur og hálfu ári sem margir nemendur eru farnir að gera til að flýta útskrift. „Það er í rauninni ekkert mál að útskrifast á þremur og hálfu ári ef maður er ekkert að falla. Planið hjá mér var samt alltaf að útskrifast í vor en svo átti ég svo lítið eftir og eiginlega nennti þessu ekki lengur svo að ég dreif bara í þessu“, sagði Ólafía í samtali við Víkurfréttir.
Ólafía segir mjög mikilvægt að vera með metnað ætli maður sér að ná góðum árangri í skólanum en hún segist þó vera langt frá því að vera skipulögð. „Málið er bara að gera það sem maður á að gera og gera það vel og taka þessu svo bara hæfilega alvarlega“.
Ólafía fór ásamt útskriftaraðli FS í útskriftarferð til Marokkó að skólanum loknum og segir hún að ferðin hafi verið æðisleg enda hafi hún verið með frábærum hópi á skrítnum og skemmtilegum stað. „Við fórum tólf saman, níu stelpur og þrír strákar, til Agadir í Marokkó og djömmuðum með aröbum og kameldýrum í tvær vikur. Við bjuggum á geggjuðu fjögurra stjörnu hóteli með þjón á hverjum fingri, yndislegt líf. Nýja árinu var fagnað með kampavíni á ströndinni og síðan lögðum við undir okkur nætuklúbbana en dyraverðirnir, sem voru luralegir menn í stórum svörtum leðurjökkum, voru fljótlega orðnir góðir vinir okkar og hleyptu okkur alltaf frítt inn. Við vöktum mikla athygli hvert sem við fórum enda er ekki mikið af hvítu bláeygðu fólki í Marokkó. Sem dæmi um athyglina má nefna að þegar við stelpurnar vorum að ganga um göturnar hikuðu marokkósku karlarnir ekki við að reyna að bjóða í okkur, boðið í mig fór upp í 10 kameldýr“.
Ólafía kom heim úr útskriftarferðinni í síðustu viku þannig að tíminn hefur að mestu farið í að ná sér niður á jörðina. „Næst á dagskrá er auðvitað að leita sér að vinnu og reyna að venjast kuldanum eftir sæluna í Marokkó. Ég fer svo í háskólann í haust en ég ætla mér að verða læknir“, sagði Ólafía að lokum en þessi eldhressi dúx á eflaust eftir að ná langt í lífinu enda með metnað og tekur lífinu greinilega ekkert of alvarlega.

Maður vikunnar

Nafn: Ólafía Sigurjónsdóttir
Fædd: 9. apríl 1983
Atvinna: Án atvinnu í augnablikinu
Maki: Makalaus
Börn: Nei
Hvaða bók ertu að lesa? Cosmopolitan ( er að hvíla heilann:))
Hvað er það fyrsta sem kemur í hugann þegar þú vaknar? Hvað er klukkan?
Ef þú gætir unnið við hvað sem er, hvað væri það þá helst? Heilaskurðlæknir
Hvað er það allra skemmtilegasta sem þú gerir? Ferðalög og ævintýri
Hvað fer mest í taugarnar á þér? Smámunasemi og nirfilsháttur
Ef þú værir bæjarstjóri í einn dag, hverju myndir þú breyta? Ég myndi leggja meiri áherslu á menntun og menningu og draga aðeins úr íþróttadýrkuninni. Svo myndi ég auðvitað fjarlægja allar hraðahindranirnar sem dritað var niður fyrir jólin.
Hvað gerir þú til að láta þér líða vel? Jóga, hlusta á góða tónlist, tala við skemmtilegt fólk og drekk hamingjute.
Hvað finnst þér mikilvægast að gera? Að sætta sig við sjálfan sig og að láta sér ekki leiðast.
Hvað er með öllu ónauðsynlegt að þínu mati? Röfl og leiðindi.
Áttu þér leyndan draum sem þú ætlar að láta rætast? Maður segir ekki frá leyndum draumum, þá rætast þeir ekki.
Gætir þú lifað án síma, tölvu og sjónvarps? Nei, ég myndi drepast úr leiðindum.
Hvað er mikilvægasta heimilistækið á heimilinu þínu? Græjurnar (hljómflutningstæki)
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur gert? Verklega bílprófið: Drap þrisvar á bílnum og ók of hratt... 10 villur af 10 mögulegum... náði samt!
Lífsmottó: Þetta reddast!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024