Brýtur niður múra og bætir heiminn!
Listahátíð sem á erindi við okkur öll, líka þá sem halda að hún sé bara fyrir hina.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum og MSS taka nú þátt í listahátíðinni List án landamæra í 5. sinn með 4 spennandi viðburðum sem íbúar eru eindregið hvattir til að taka þátt í og njóta.
Dagskráin hefst í næstu viku á sumardaginn fyrsta með opnun samsýningar í Bíósal Duushúsa þar sem leiðir saman hesta sína fólk úr ólíkum áttum með fjölbreyttri myndlist.
Á síðasta ári stóðu félagar í Björginni og fleiri fyrir Geðveiku kaffihúsi í Svarta pakkhúsinu sem sló heldur betur í gegn með trufluðum veitingum og fjölbreyttum uppákomum. Nú ætla þau að endurtaka leikinn og eru allir hvattir til að fylgjast með viðburðum þar.
Strætóskýli í bænum munu einnig fá nokkra andlitslyftingu sem vonandi lyftir einnig geðinu okkar og léttir okkar lund. Þá láta Bestu vinir í bænum sitt ekki eftir liggja og hafa nú í annað sinn sett saman nýja sýningu, Tímavélina, í Frumleikhúsinu, sem enginn má láta framhjá sér fara. Ef þú misstir af þeim síðast skaltu ekki láta það gerast aftur.
Fylgist með dagskrá í næstu Víkurfréttum og á vef og Facebook Reykjanesbæjar.
Lífið er yndislegt!
Dagskráin er styrkt af Menningarsjóði Suðurnesja