Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Brýnt að við stöndum saman
Fimmtudagur 1. janúar 2009 kl. 01:51

Brýnt að við stöndum saman



Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum:

Árið 2008 hefur verið eitt það viðburðaríkasta í sögu þjóðarinnar. Þar erum við Vogamenn ekki undanskildir. Bankahrunið stendur að sjálfsögðu upp úr, og hefur haft mikil áhrif á okkar starfsemi. Reyndar varð sveitarfélagið ekki fyrir beinum skakkaföllum þar sem við vorum með okkar sjóði í Vogaútibúi Sparisjóðsins í Keflavík.

Það gerðist margt líka margt jákvætt á árinu, og þar eru það smærri atriðin sem skipta máli. Fjölskyldudagurinn okkar var mjög eftirminnilegur og skemmtilegur. Öll fjölskyldan gat fundið eitthvað við sitt hæfi. Forsetahjónin heiðruðu okkur með nærveru sinni og afhjúpaði forsetinn listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson myndlistamann. Listaverkið setur mjög skemmtilegan svip á umhverfi Vogatjarnar og er okkur til mikils sóma. Áfram var unnið að þvi að fegra umhverfið og settt voru upp fræðsluskilti um lífríki Vogatjarnar og fjörunnar.
Það urðu nokkrar breytingar á starfsemi sveitarfélagsins. Meðal annars má nefna að nýir skólastjórar í leik- og grunnskóla tóku til starfa og hafa sett svip sinn á skólastarfið. Börnin dafna vel og hafa skólarnir verið opnaðir enn frekar fyrir samstarfi við heimilin.

Það er mikil óvissa um hvernig næsta ár þróast. Viðbúið er að það verði mjög hart á dalnum, a.m.k. fyrstu mánuði ársins. Þá er brýnt að við stöndum saman og hugum að þeim sem hallast standa. Þar á ég við samfélagið í heild sinni. Besti stuðningurinn er oftar en ekki sá félagslegi sem við fáum frá fjölskyldu og vinum.
Framtíðin er björt, hvort sem litið er til landsins í heild eða Suðurnesja. Ég skrifaði grein í VF fyrir skömmu síðan þar sem ég lagði áherslu á það að við lítum á björtu hliðarnar. Á svæðinu er öflugt fólk, náttúruauðlindir, bestu samgöngur í lofti, láði og legi og ýmis verkefni í farvatninu. Þó staðan sé ekki góð í dag, er von um betri tíð. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024