Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Brútal menning í frystihúsunum - þurfti að lemja karlana frá sér
Þriðjudagur 14. september 2021 kl. 10:42

Brútal menning í frystihúsunum - þurfti að lemja karlana frá sér

Oddný Harðardóttir fyrrum fjármála og efnahagsráðherra ólst upp í alkohólistafjölskyldu en foreldar hennar skildu þegar hún var 12 ára gömul. Mamma hennar elur þær upp þrjár systurnar. „Það gekk ýmislegt á á heimilinu áður en þau skilja, pabbi var drykkjumaður. Við systur vorum, eins og oft í alkóhólistafjölskyldum, með hvert sitt hlutverk. Jenna systir var þessi alvarlega og ábyrga. Ég tók að mér að koma með einkunnarblöðin úr skólanum til þess að sýna að það væri nú allt í lagi á þessu heimili. Dæja systir var svo skemmtilega barnið,“ segir Oddný í einlægu viðtali við Góðar sögur hlaðvarp. Þar fór hún m.a. yfir æskuna í Garðinum og upplifun sína sem kona á Alþingi.

Móðir Oddnýjar lagði áherslu á að systurnar gengju menntaveginn en það var allt annað en auðvelt á þessum tíma. „Við áttum bara enga peninga og það var þröngt í búi.“ Hún sá fram á það að geta ekki sótt tónlistaskóla sem barn en amma hennar bauðst til að borga skólagjöldin. Hún gerir nú slíkt hið sama fyrir sín barnabörn vilji þau stunda tónlistarnám. Hún minnist þess líka að hún gat ekki stundað nám við Menntaskólann á Laugarvatni vegna fjárhagsörðugleika.

Á sínar MeToo sögur læstar ofaní kistu

Aðspurð um upplifun sína sem kona í stjórnmálum segir Oddný að oft þurfi konur að hafa meira fyrir því að á þær sé hlustað: „Ég bara finn fyrir því og ég hef rætt þetta við kollega mína sem eru konur. Við segjum eitthvað eða komum með góða hugmynd sem við erum búnar að pæla í og spá og pekúlera og komum svo með hana fram, en það einhvern veginn hlustar enginn. En um leið og einhver karl segir nákvæmlega það sama, þá hlusta menn og nú skal láta hlutina raungerast. Þetta er reynsluheimur okkar kvenna, við þurfum að hafa meira fyrir því að fá hlustun og stuðning við okkar hugmyndir.“

Varðandi MeToo byltinguna segist Oddný ánægð með að þessar sögur séu dregnar fram í dagsljósið. „Ég er mjög ánægð með að ungar konur segir bara hingað og ekki lengra.“
Oddný segir tengja mikið við þessa lífsreynslu sjálf. „Í frystihúsinu í gamla daga var mjög brútal menning og maður þurfti að lemja frá sér ef maður sætti sig ekki við að það væri klipið í rassinn á manni þegar maður gekk framhjá. Ég myndi aldrei fara að draga fram mínar MeToo sögur upp úr kistunni sem er búið að setja lás á,“ bætir hún við.

Í viðtalinu talar Oddný einnig um feril sinn í stjórnmálum sem er tilviljunum háður. Aldrei ætlaði hún að feta þá slóð. Fyrst kvenna varð hún þó bæjarstjóri í Garðinum, hún er eina konan sem hefur verið skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún varð svo fyrst kvenna til þess að gegna hlutverki fjármálaráðherra. Það tímabil var Oddnýju einstaklega lærdómsríkt. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024