Börnin eru það mikilvægasta sem við eigum
Karen Sævarsdóttir, golfkennari, starfar hjá Golfklúbbi Suðurnesja ásamt því að reka sitt eigið fyrirtæki, Einfalt Golf. Karen á að baki langan og farsælan áhugamanaferil í golfi, þar sem telja má 8 Íslandsmeistaratitla í kvennaflokki, 4 Íslandsmeistaratitla í holukeppni kvenna og 7 Íslandsmeistaratitla í unglingaflokki. Karen var einnig klúbbmeistari kvenna hjá GS í 8 ár og vann þar að auki marga sigra á stigamótum GSÍ.
Karen Lauk viðskiptaprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fór þaðan í BBA í markaðsfræði en útskrifaðist einnig með MBA frá Lamar University í Texas í Bandaríkjunum. „Starfið mitt er þó nokkuð fjölbreytt. Ég kenni og þjálfa golf og samhliða því rek ég fyrirtæki í kringum þetta allt,“ sagði Karen í samtali við Víkurfréttir.
„Hér á Íslandi starfaði ég hjá DHL Express sem Business Controller eða einskonar endurskoðandi og var samhliða því að kenna golf hjá Golfklúbbnum Oddi.“ Áður en Karen kom heim frá Bandaríkjunum starfaði hún sem útibússtjóri og sá um allan rekstur á nokkrum bankaútibúum hjá Woodforest National Bank.
Karen segir golfkennsluna frábæra og að það sé alltaf gaman að kenna fólki. „Hún tekur hinsvegar óhemju tíma og teygir sig ansi mikið inn í allt líf manns,“ bætti hún við.
„Þetta er mjög svo gefandi starf og ég tel það heiður að fá að miðla reynslu minni og þekkingu til annara eða með öðrum. Fólk er að treysta þér til að aðstoða sig og fyrir þjálfun barna sinna sem ég tek ekki létt þar sem barnið mitt er það mikilvægasta sem ég á,“ sagði Karen aðspurð hvort starfið væri gefandi. „Ég geri mér grein fyrir því að ég er með mikil verðmæti í höndunum á hverri æfingu.“
Draumastarf Karenar eru nokkur og þá tengd viðskiptum en líka golfinu en hún telur sig getað sameinað þessa drauma í eitt starf. „Ég myndi vilja vera með alhliða golfskóla sem væri líkt og golfskólar erlendis en þetta er allt spurning um raunverulega möguleika.“ Karen er með hugmyndir fyrir golfskóla hér heima á Íslandi en telur möguleikana þó meiri erlendis.
[email protected]