„Börn vilja flott sjónarspil“
- Frumflytur óperuballett í Norðurljósasal Hörpu
„Ég samdi þennan óperuballett því mér fannst það alltaf svo gaman þegar ég starfaði sem óperusöngkona í Kiev þegar það voru uppsetningar á óperum fyrir börn. Þau vilja mikið og flott sjónarspil og það er einmitt þannig sem þessi sýning verður,“ segir Alexandra Chernyshova, óperusöngvari og tónlistarkennari. Hún er búsett í Reykjanesbæ en kennir tónmennt í Stóru-Vogaskóla og mun koma fram í Norðurljósasal Hörpu ásamt áttatíu manna hóp þann 2. desember nk. og hefst sýningin kl. 14:00. Þar mun hún flytja verk sitt „Ævintýrið um norðurljósin“ sem er óperuballett. Alexandra samdi verkið sjálf, eins og áður kom fra, en þetta er önnur óperan sem hún semur. Alexandra stofnaði nýverið kór í Stóru-Vogaskóla sem mun taka þátt í óperuballettinum og eru stífar æfingar hjá hópnum þessa dagana.
Samdi verkið út frá sögu mömmu sinnar
„Hér í Stóru-Vogaskóla eru um tuttugu og fimm krakkar í kór sem var stofnaður í haust. Meirihluti kórsins er stelpur en það eru líka fjórir flottir strákar með okkur. Ég kynnti söguna „Ævintýrið um norðurljósin“ fyrir kórnum sem mamma mín skrifaði en ég samdi verkið út frá henni. Ég söng svo óperu fyrir þau. Ópera heillar kannski ekki börn og mörg þeirra hlusta ekki á þannig tónlist. Þau voru til í þetta en ég lét þau ekki vita alveg strax að þau myndu koma fram í Hörpu. Ég vildi að þau hefðu áhuga á verkinu sjálfu en ekki bara vegna þess að þetta væri í Hörpu. Ég hef fulla trú á þessum krökkum en við æfum stíft núna fram að sýningu.“
Ævintýrið um norðurljósin, bók eftir mömmu Alexöndru
Önnur óperan sem Alexandra semur
„Ég hef verið viðloðin tónlist frá fimm ára aldri og er með þrjár mastersgráður í tónlist. Ég hef einnig starfað við óperu í sextán ár. Ég er sum sé búin að vera ansi lengi í þessum óperuheimi og hann er svo heillandi, það er leikur, tónlist, búningar, flott sviðsmynd og í óperunni er eins og allt listasviðið komi saman,“ segir Alexandra og bætir við brosandi að hún sé að gera eitthvað sem hún elski og að tónlist sé ástríðan hennar.
Alexandra stjórnar æfingu í Stóru- Vogaskóla
Verður heilmikið sjónarspil
„Í sýningunni er álfadrottning, norðurljósin koma heilmikið við sögu, Njörður og Skaði eru með, töfrar ástarinnar birtast en sagan er einmitt um tröllastelpu og álfadreng sem verða ástfangin í nýja heiminum. Álfadrottningin er síðan sú sem stjórnar nýja heiminum og reynir að vernda samhljóminn í honum. Það eru um áttatíu manns sem koma að sýningunni, fjórtán manna hljómsveit, einn barnakór og einn fullorðinskór, sjö einsöngvarar, hreyfimynd frá Egyptalandi og myndband af norðurljósunum frá Jóni, manninum mínum. Þeir sem koma fram verða í búningum, þetta verður fallegt og heilmikið sjónarspil og ég vonast til þess að sjá sem flesta.“