Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:39

BORÐIN SVIGNUÐU UNDAN SÚKKULAÐI OG PIPARKÖKUM

Sigurður Gíslason fæddist 16. júní 1911 og er sonur hjónanna Gísla Sigurðssonar járnsmiðs og vélstjóra og Margrétar Jónsdóttir, úr Húnavatnssýslunni. Faðir hans fæddist á Hvaleyri í Hafnarfirði en flutti snemma Keflavíkur. Sigurður er því fæddur og uppalinn Keflvíkingur en hann er giftur Sigurlaugu Hallmannsdóttur. Jólatrésskemmtun hjá Duus Verslunin Duus í Keflavík stóð fyrir árlegum jólaskemmtunum fyrir börnin í þorpinu í rauða pakkhúsinu við Grófina. Sigurður á góðar minningar frá þessum skemmtunum. „Ég hef verið 6 eða 7 ára þegar ég fór á fyrstu jólatrésskemmtunina hjá Duus. Það var voðalega mikið upplifelsi. Þá var gengið í kringum jólatréð og tveir menn sáu um að skipta um kerti á trénu því þetta var nú timburhús og ekkert mátti út af bera. Þarna var alltaf alvörutré sem verslunin hefur sennilega flutt inn. Börnin fengu líka pakka og ég man eftir hlut sem ég hafði sérstakan áhuga á. Það endaði með því að ég fékk þennan hlut en það var upptrekkt járnbrautalest. Ætli það sé ekki minnistæðasta jólagjöfin mín“, segir Sigurður. Hann segir að Duus húsið hafi verið tvískipt á þessum tíma. Jólatréð var í suðurendanum og í norðurendanum voru dúkuð borð sem svignuðu undan súkkulaði og piparkökum. Engin fór í jólaköttinn Hvernig upplifðir þú jólin? „Það var úr voðalega litlu að spila og ekkert um jólagjafir og svoleiðis. Það mátti samt enginn fara í jólaköttinn og allir fengu einhverja flík. Flíkurnar voru ekki endilega gerðar úr nýju efni, oft voru þær saumaðar upp úr gömlum fötum. Svo fékk maður kannski barnaspil og kerti. Það var nú ekki merkilegra en það“, segir Sigurður. Hann segir að lítið hafi verið skreytt fyrir jólin og jólatréð var heimasmíðað, fóðrað með grænum pappír. Alltaf nóg að borða „Á jólunum var alltaf nóg að borða en strax á stríðið skall á var allt skammtað. Á mínu heimili borðuðum við hangikjöt og svo voru alltaf heimabakaðar kökur á boðstólnum. Við fengum líka alltaf grjónagraut með safti“, segir Sigurður. En hvað finnst þér um jólin í dag? „Mér finnst allt snúast orðið um peninga og mér finnst það alveg agalegt. Við hjónin ætlum að vera í Reykjavík hjá dóttur okkar á aðfangadag og Þorláksmesu en veit ég ekki um framhaldið“, segir Sigurður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024