Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sunnudagur 20. desember 1998 kl. 19:34

BÓNBRÆÐUR MEÐ BÍLADELLU

Í miðbænum í Keflavík var oft ýmislegt að gerast á sjöunda áratugnum. Barnmargar fjölskyldur voru þar í öðru hverju húsi og lífið á mölinni var fjörugt og fjölskrúðugt. Sérstaklega var strákafjöldinn áberandi í hverfinu í kringum Félagsbíó enda leiksvæðið sniðið fyrir snáða, sem léku sér í drullupollum og kassabílaralli. Á Klapparstígnum bjó hinsvegar Eyjólfur kaupmaður Bjarnason, oft nefndur Eyfi pjakkur og í nábýli við hann bjó annar Eyjólfur en sá var Sverrisson og hafði á þeim tíma ekki hlotið neitt viðurnefni ennþá, enda vart búinn að slíta barnsskónum hvað þá annað. En Eyfi pjakkur hafði þann sið að heilsa hinum yngri ávallt með því að kalla hann nafna þegar þeir hittust og þetta löptu krakkarnir í hverfinu upp og festu viðurnefnið á hinn yngri líka. Stundum var það gert í stríðni og í hita leiksins, þess á milli var það ekki. Skutlan gerði lukku Viðmælendur okkar eru reyndar tveir, bræðurnir Eyjólfur og Sverrir Sverrissynir og þeir eru aldir upp á Vallargötunni við hliðina á bíóinu. Þá þarf vart að kynna sérstaklega, enda báðir þekktir úr bílabransanum, hvort heldur úr bílasölu eða bílaleigu. Þá hafa þeir einnig keypt og endurbætt nokkur hús í bæjarfélaginu og nýverið lauk endurbótum á nýjasta húsinu við gömlu Fiskiðjuna. Fyrirtækið þeirra Vatnsnes s/f hefur farið ört vaxandi og haft ýmislegt fyrir stafni þótt það sé aðeins á fermingaraldri og því ekki úr vegi að kynnast framtakssemi bræðranna eilítið. Við heimsóttum þá í nýja húsnæðið þeirra á Iðjustíg 1 og þegar Eyfi var spurður um viðurnefnið sagðist hann ekkert vera sár yfir viðurnefninu núna, þótt einhverntíman hafi það verið þung byrði á yngri árum. Hann rifjar upp með ánægju þær æskustundir sem hann átti, allt frá því hann byrjaði að smíða spýtubíla, stóra sem smáa og bílaleikjunum á tilbúnu vegunum á túninu bak við Hábæ á Kirkjuveginum. En fyrsta farartækið sem hann eignaðist var svolítið sérstakt. „Ég keypti mér svokallaða skutlu, sem hann „Gummanó“ hjá Rafveitunni hafði átt í nokkurn tíma en hún var þannig uppbyggð, að þú þurftir að byrja á því að hjóla á ákveðna ferð og þegar hraðinn var orðinn nægur, skellti maður mótornum á dekkið og þannig hélt hann við hraðanum. Áður en ég keypti af honum hjólið, hafði ég gert við hann samning um að ég mætti heim til hans í hverjum mánuði og bónaði það fyrir hann, svo það liti vel út þegar ég fengi það“ sagði Eyfi og hló að minningunni. Snyrtimennskan var þegar farin að segja til sín. Bíladellan gerir vart við sig En þótt skellinöðrurnar hafi átt sinn sess í upphafi, þá var bíladellan ekki langt undan. Sjálfur var Eyfi farinn að fá að stýra vörubílnum hjá pabba sínum úti á Melabergi, þá aðeins tíu ára gamall. Einnig sátu þeir bræður stundum dögunum saman í bílnum með pabba sínum, sem keyrði mikið í þá daga og segja þeir bíladelluna sennilega komna þaðan. „Það merkilega við þetta er, að þótt við bræðurnir sætum mikið með honum í vörubílnum, þá held ég að bíladellan í mér sé komin frá honum Elvari Jóns í Grindavík, en hann kom oft í heimsókn til okkar og var yfirleitt á sérstaklega fallegum bílum. Síðan þegar ég fæ prófið, þá lagði ég ríka áherslu á að halda bílunum mínum hreinum og snyrtilegum og fyrir vikið æxluðust hlutirnir þannig, að menn voru sífellt að falast eftir þeim hjá mér. Sennilega er þá sölumennskan komin upp í mér og fyrr en varði, var ég farinn að geta keypt mér fallegri bíla. Þessi ásókn hefur ávallt loðað við okkur bræðurna síðan enda voru þeir mikið með mér í bílunum á þessum tíma. Ég fór síðan fljótlega að vinna á sendibílnum hjá Kaupfélaginu og var á honum í ein fimm ár eða allt þar til Sverrir tók við af mér, því mér var ekki sama um hver það væri sem tæki við. Ég var meira að segja tveimur mánuðum lengur á bílnum heldur en ég átti að vera, því Sverri vantaði þá mánuði upp á prófið en ég var orðinn deildarstjóri í Kaupfélaginu á þeim tíma“ segir Eyfi sporskur og Sverrir hélt uppteknum hætti með söguna, enda engu síðri sögumaður. Hann hélt tryggðinni við húsbændurna og ók sendibílnum í önnur fimm ár, eins og stóri bróðir hafði gert en sá hafði þá farið í víking til hennar stóru Ameríku og gerst bílstjóri hjá Sendiráði Íslands í New York! Var það ekki líkt honum að komast í „limmana“? Sífellt að skipta um gír Þegar hér er komið við sögu, takast þeir bræður á við nýtt verkefni. Þeir kaupa videoleigu við Hafnargötuna og vinna baki brotnu í þeim bransa í ein tvö ár. Eftir að þeir seldu hana, tóku þeir við rekstri bensínafgreiðslu og verslunar á Fitjum og keyptu síðan Tommaborgara, sem þar var einnig innandyra. Einnig fylgdi kaupunum gömul þvottastöð þar sem Fitjanesti hafði áður verið og þá byrjuðu þeir að þvo og bóna bíla fyrir einstaklinga og fyrirtæki. „Það var þá sem við bræðurnir fengum viðurnefnið „Bónbræður“ og má segja að það fylgi okkur enn þann dag í dag. Að vísu höfðum við fengið inni þarna áður, til þess að þrífa bíla fyrir Árna Sam og fleiri en þegar við keyptum þetta, þá jókst þessi vinna töluvert og ekki að undra þótt viðurnefnið hafi orðið til. Við erum hinsvegar nýbúnir að selja bónstöðina sem fylgdi okkur frá Fitjum en viðurnefnið fylgdi ekki með í kaupunum“ sagði yfirbónarinn og þar við sat. Síðan fikra þeir sig nær því umhverfi sem þeir eru hvað kunnastir fyrir og setja á stofn Bílasölu Keflavíkur árið 1992. Eyfa er það engin launung að þá hafi þeir næstum fengið yfir sig nóg af bílabransanum. „Þar vorum við svo sannarlega á heimavelli því ég var búinn að vera að flytja inn bíla frá Bandaríkjunum í tíu ár þar á undan og standa í sölumennsku samfara því. En þessi vinna var tímafrek og þau fimm ár sem við stóðum vaktina, tóku sinn toll og að lokum var hún orðin alltof mikil, bæði fyrir okkur og fjölskylduna. Þó við séum vanir því að vinna mikið og aldir upp við það, að allir dagar væru eins, þá er ekkert vit í því að vera að fara til vinnu snemma að morgni og koma jafnvel heim klukkan tólf að kvöldi, sem var því miður orðið alltof algengt hjá okkur báðum. Það var því ekkert um annað að ræða en að selja og koma okkur út úr þessari hringiðu sem hafði algerlega fangað okkur.“ Frískuðu upp á Fiskiðjuna Þeir bræður sögðu þó ekki alveg skilið við bílabransann, því þeir eru enn að flytja inn og selja bíla frá Bandaríkjunum, að ógleymdri bílaleigunni sem þeir eiga og reka. En nú hafa þeir einbeitt sér að svolítið öðrum málum, þó ekki alls óskyldum. Lengi höfðu þeir haft augastað á gömlu loðnuþrónum við Fiskiðjuna sálugu og þegar fyrirtækið þeirra stóð skyndilega uppi húsnæðislaust eftir að hafa selt iðnaðarhúsnæði í Grófinni, þá slógu þeir til og keyptu gömlu þrærnar. Þarna skyldu þeir koma sér fyrir hversu ólíklegt sem það hljómaði. „Við keyptum þetta fyrir nákvæmlega ári síðan og að vísu voru nokkrir þröskuldar í veginum til að byrja með, enda svæðið skipulagt undir stjórnsýsluhús bæjarins. Málið var eina fimm mánuði í kerfinu en með góðra manna hjálp yfirstigum við erfiðleikana og málið hafðist í gegn. Síðan drifum við í því að gera húsnæðið upp og það er ekki ofsögum sagt að við höfum fengið afskaplega góðar undirtektir frá fólki varðandi endurbygginguna og það hefur lýst ánægju sinni með hversu vel tókst til að hressa upp á umhverfið. Einnig voru það skemmtilegar tilviljanir sem ollu því að við fengum svo til samdægurs góða leigjendur í þessi fjögur bil af fimm og erum við búnir að undirrita fimm ára leigusamning á húsnæðinu“ sagði Sverrir en fyrirtækið sem þarna um ræðir er kanadískt að uppruna og kemur til með að setja upp samsetningarverksmiðju á kælitækjum til útflutnings. Fleiri hús í deiglunni Það er ýmislegt fleira á döfinni hjá þeim bræðrum og þegar þeir voru inntir eftir næstu skrefum eða framtíðaráformum, skelltu þeir báðir upp úr og báðu griða hvað það varðaði. Eitt er víst, að þeir eru ekki alveg hættir í húsakaupum og jafnvel skýrast þau mál á næstunni. En skyldu þessir kappar hafa einhver önnur áhugamál en vinnuna? „Ég er nú aðeins farinn að hægja á mér og leyfa mér að rækta fjölskylduna, en Sverrir ætlar að vera ör eins og ég var“ segir Eyfi í alvarlegum tón og þeir viðurkenna báðir að engin sérstök áhugamál séu uppi á pallborðinu önnur en þau að rækta fjölskylduna sína. Eitt eiga þessir bræður þó allir sammerkt en það er reglusemi. Óregla er nokkuð sem þeir hafa verið blessunarlega lausir við enda eru þeir mjög stoltir af því og láta vel í það skína í samræðunum. Það skyldi þó ekki vera grunnurinn að velgengni þeirra eftir allt saman?
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024