Bók fyrir jólabarnið í okkur öllum
Jana María Guðmundsdóttir er söng- og leikkona og er sífellt að skapa. Hún er fædd á þjóðhátíðardegi Íslendinga, er ein af Keflavíkurdætrum, einstaklega hæfileikarík og skapandi ung kona. Fyrstu skrefin á sviði steig hún í kjallara Myllubakkaskóla, á litla leiksviðinu þar, þegar hún tók þátt í leiklistarnámskeiðum og foreldrasýningum skólans. Jana María getur svo margt, er svo einstaklega fjölhæf.
Hún lærði söng í Söngskólanum í Reykjavík, leiklist í Royal Conservatoire í Skotlandi og handritaskrif í New York og Odense. Hún gerði Jólin með Jönu Maríu fyrir Krakka RÚV og hefur leikið í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar og starfar sjálfstætt sem leikkona og framleiðandi. Hún hefur haldið tónleika og sungið margvíslega tónlist; klassík, djass, íslensk dægurlög, popp og söngleiki á Íslandi og erlendis. Jana María gaf út sína fyrstu breiðskífu, FLORA, haustið 2017 með eigin lögum og textum. Nú kennir hún söngleiki hjá Söngskóla Sigurðar Demetz og heldur áfram að skapa skemmtileg verkefni með því að skrifa, syngja, leika, framleiða, búa til eitthvað í höndunum og ferðast um heiminn. Jana María býr í Reykjavík en kemur oft í gamla bæinn sinn, bæði til að heimsækja fjölskyldu og vini. Hún tekur að sér verkefni fyrir brúðkaup, jarðarfarir eða skemmtir við alls kyns tækifæri.
Töfrandi stundir á aðventu fyrir börnin
Við hittumst einn fagran vetrarmorgun í kaffihorni bókabúðarinnar Penninn Eymundsson við Krossmóa. Jana María mætti geislandi glöð í viðtalið eins og hennar er von og vísa, enda einstaklega jákvæð manneskja. Tilefnið var að ræða um bók sem daman sú var að skapa fyrir börn á öllum aldri og bókaútgáfan Salka gefur út, fyrsta bók höfundar.
„Ég starfa einnig sem flugfreyja en það er aukastarfið mitt,“ segir Jana og hlær, „því það gefur mér frelsi til að framkvæma það sem ég er að skapa. Ég er með mörg járn í eldinum, sem næra hvert annað. Ég kann vel við fjölbreytnina, að fara úr því að búa til bók yfir í flugfreyjubúninginn og úr fluginu í að kenna söng hjá Demetz. Föndrið, að skapa með höndunum, hefur alltaf fylgt mér og það vita þeir sem þekkja mig. Af þeirri ástæðu var ég beðin um að gera stutta föndurseríu fyrir RÚV jólin 2016, þátt sem þeir nefndu Jólin með Jönu Maríu, sem var ótrúlega skemmtilegt. Konurnar hjá bókaútgáfunni Sölku sýndu hugmyndinni um jóladagatalsbók einnig áhuga og vildu gefa út bók um þennan jólaundirbúning minn sem fram fer á aðventu. Töfrandi jólastundir nefnist bókin og er dagatal fyrir desember sem gefur hugmyndir um hvað sé hægt að gera alla daga fyrir jól,“ segir Jana María og brosir, greinilega spennt að sjá bókina þegar hún kemur úr prentun.
Bókin getur sameinað fólk á öllum aldri
Jana María hefur alltaf haldið mikið upp á jólin en henni er einnig annt um börnin, að þau upplifi fallega og notalega aðventu á meðan þau bíða eftir jólum. Bókin er einmitt hugsuð til þess að gefa börnum nútímans frið frá tækninni og leyfa þeim að vinna með höndunum, skapa eitthvað fallegt fyrir jól.
„Ég er einstaklega mikið jólabarn. Heildarhugsun mín með bókinni var að búa til stað fyrir börn til að skapa fyrir jólin, gefa þeim hugmyndir fyrir hvern dag á aðventunni, frá 1. desember. Bókin er þannig útbúin að hún getur nýst ár eftir ár því ekki á að klippa blaðsíðurnar úr henni. Að börn, jafnvel unglingar og fjölskyldan öll, sleppi símanum, setjist niður og búi til eitthvað fallegt á aðventu. Bókin gefur fullt af hugmyndum og hvetur börn frá sex ára og upp úr til að búa til með höndunum, verkefnin eru bæði einföld og flókin en þar geta hinir fullorðnu komið inn í. Að nota það sem er í kringum þau, endurnýta, búa til gjafir, skapa. Bókin hjálpar þeim að vera í núvitund en það er það sem gerist þegar við erum að skapa. Bókin er byggð á ljósmyndum og hugmyndatexta, góðum ráðum og hugmyndum fyrir lengra komna. Ég sé notkunarmöguleika bókarinnar einnig til að tengja fólk saman, börn við foreldra eða afa og ömmu. Bókina geta börn einnig dundað sér við, gert verkefnin sjálf og ein. Mér finnst þörfin fyrir samveru vera sterk, sérstaklega núna á okkar tímum þegar margir eru einangraðir í símanum sínum. Fólk vex í samskiptum við hvert annað þegar það er saman og það er líka svo miklu skemmtilegra en að hittast í símanum. Þá fáum við líka annað sjónarhorn á hvort annað, þegar við sjáumst og erum saman. Ég sé kynslóðirnar saman með þessa bók, börn og unglingar, mömmur og pabbar, ömmur og afar. Allir hafa gaman af því að skapa eða að hjálpa litlum höndum að skapa,“ segir Jana María, létt og brosir.
Kerti og spil, epli og mandarínur
Allsnægtir flæða alla daga ársins. Sumum finnst við borða og lifa eins og það væru jól alla daga því við höfum það svo gott. Kannski væri sniðugt að umturna jólum nútímans og breyta þeim úr kaupæði yfir í nægjusemi. Heiðra þannig á jólum formæður og forfeður okkar, rifja upp einfaldleika fortíðar, búa til gamaldags jól eins og þegar amma og afi voru ung. Hugmynd?
„Það hefur svo margt breyst á stuttum tíma og fólk á nóg af öllu í dag. Við verðum að skilja hvernig það var að fá kerti og spil í jólagjöf á árum áður, þegar amma og afi voru lítil. Það þykir kannski ekki merkileg gjöf í dag en þessi gjöf gaf samt ótalmargar stundir við spil. Eða þegar eina nammið um jól voru epli og svo seinna líka mandarínur. Nú flæðir allt af mat og sælgæti. Þess vegna set ég viljandi kafla í bókina sem tengist Þorláksmessu, þegar mamma og pabbi eru upptekin úti í bæ að versla fyrir jólin, að barnið fari á meðan til ömmu og afa að spjalla um jólin og til dæmis rifja upp jól í gamla daga. Bókin gefur börnunum hugmynd um hvernig hægt er að undirbúa sig fyrir jólin, á hverjum degi á aðventu er ný hugmynd í bókinni og á Þorláksmessu er þessi með eldri borgara og börnin. Tíminn er í raun besta gjöfin sem við gefum hvoru öðru. Alls konar hugmyndir finnast í bókinni, til dæmis hvernig hægt er að búa til spil og útbúa jólagjafir, gefa heimagerða gjöf. Það má skrifa sögu eða ljóð og skreyta fallega til að gefa í jólagjöf. Fleiri skapandi forvitnilegar hugmyndir finnast í bókinni. Bókina má nota aftur og aftur, ár eftir ár. Mig hefur lengi langað að gefa út svona bók fyrir jólin og nú er draumurinn orðinn að veruleika,“ segir Jana María Guðmundsdóttir og við óskum henni til hamingju með afraksturinn.
Jana María verður í versluninni Penninn/Eymundsson í Reykjanesbæ, að árita bókina sína, fimmtudaginn 28. nóvember frá klukkan 17 til 19. Allir velkomnir!