Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blúnda setti Íslandsmet
Fimmtudagur 1. febrúar 2007 kl. 16:04

Blúnda setti Íslandsmet

Margt hefur verið sagt um Suðurnesjamenn en fátt hefur tengst miklum afrekum í landbúnaðargeiranum. Það þykir því til tíðinda að Keflvíkingur eigi afkastamestu mjólkurkú landsins.
Síðasta ár mjólkaði kýrin Blúnda, sem er í eigu hjónanna Önnu Maríu Kristjánsdóttur frá Keflavík og Ara Árnasonar, meira en nokkur íslensk kýr hefur áður gert á einu ári eða 13.327 lítra. Síðasta met var rúmlega 12.700 lítrar. Til samanburðar má geta þess að Blúnda sjálf er um 5-600 kg á þyngd þannig að hún mjólkaði rúmlega tuttugufalda þyngd sína.


Anna María og Ari, sem reka bú með 37 kúm að Helluvaði í Rangárþingi ytra, hafa aldrei átt aðra eins mjólkurkú, en hún Blúnda þykir afar ljúf og góð fyrir utan þær miklu afurðir sem af henni renna.


„Þetta er fyrsta árið sem hún mjólkar svona mikið en hún er greinilega gott eintak án þess þó að hún sé undan nokkrum kostagripum,“ segir Anna María sem hefur rekið bú fyrir austan fjall í rúm tuttugu ár.


Blúnda framleiddi gífurlegt magn á hverjum degi, eða um 40 lítra, hún var samt eldsnögg að skila því af sér.
„Það eru sumar kýr sem mjólka miklu minna sem tekur lengri tíma að mjólka,“ segir Anna María. „Þannig að hún er algjör draumur. En við knúsum hana og erum góð við hana þannig að hún er kannski að endurgreiða okkur með þessu.“

 

Þessa dagana er Blúnda ekki að mjólka enda komin í „fæðingarorlof“ og á að bera þann 7. febrúar. Anna María segir þau hjónin ekki í vafa hvers þau óska sér úr burðinum, enda er mikils að vænta af afkvæmum hennar. „Við biðjum auðvitað alla góða vætti um að hún fái kvígu!“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024