Blóðrauð bíómynd með uppvakningum – tekin upp á Suðurnesjum
Um þessar mundir standa yfir tökur á fyrstu kvikmynd Hamagu pictures í fullri lengd. Um er að ræða hrollvekju af bestu gerð þó svo framleiðandi myndarinnar segi hreint út að myndin fari strax í flokk svokallaðra B-mynda. Það ræðst af því að myndin er framleidd fyrir brot af þeim peningum sem annars myndi kosta að framleiða sambærilega mynd. Kostnaði við framleiðsluna er haldið niðri með því að nær allir gefa vinnu sína. Kvikmyndin heitir Zombie Island og handritshöfundur, leikstjóri og framkvæmdastjóri verkefnisins er Marteinn Ibsen kvikmyndagerðarmaður úr Reykjanesbæ. Á sama hátt og neyðin hafi kennt naktri konu að spinna, þá var það verkefnaskortur sem rak Martein og félaga hans í að framleiða bíómynd.
Zombie Island er þjóðfélagsádeila og er saga minnislauss manns rakin þar sem hann gengur inn í samfélag sem er gjörsamlega farið á hausinn. Nóg er af uppvakningum út um allt en að sjálfsögðu finnst fólk á lífi hér og þar. Myndin er blóðug hrollvekja en höfundurinn segir að hins vegar sé ekkert gaman af hrollvekjum nema að þú getir brosað eitthvað af þeim líka.
Marteinn segir að allir séu mjög spenntir fyrir verkefninu og allir vilji vera með í gerð myndarinnar. En þar sem ekki sé hægt að greiða laun, þá eiga ekki allir kost á því að taka þátt í verkefninu af fullum krafti og komast ekki alltaf. Marteinn segir að listinn yfir aðstandendur verkefnisins innihaldi yfir 200 manns. Þá segir Marteinn að hjálpsemin sé víða. Þannig hafi kvikmyndataka farið fram í matvöruverslununni Kosti í heilan dag. Verslunin var lokuð og var fyllt af uppvakningum. Þegar viðskiptavinir sáu líf við verslunina hafi þeir streymt að en þeim mættu svo blóðugir uppvakningar. Sumum var brugðið, en allir fengu afgreidda mjólkina sína, þó svo á dagatalinu væri föstudagurinn langi.
Marteinn segist þakklátur fyrir alla þá hjálp sem kvikmyndagerðarfólkið hafi fengið. Þannig hafi Brunavarnir Suðurnesja aðstoðað við gerð myndarinnar og einnig lögreglan á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Háskólavellir veittu aðgang að byggingum á Ásbrú. Kvikmyndagerðafólkið leigir einnig aðstöðu til kvikmyndatöku í Atlantic Studio sem staðsett er á Ásbrú. Myndin er tekin víða á Reykjanesi, bæði í byggð og á Reykjanestá. Þá kemur tónlistarfólk af Suðurnesjum einnig að myndinni. Þar má nefna Keflvíkinginn Veigar Margeirsson, sem gerir það gott í kvikmyndatónlist í Bandaríkjunum, og Valdimar Guðmundsson sem mun vinna að tónlist fyrir myndina með hljómsveit sinni.
Í myndinni eru þrettán „talandi“ hlutverk en mun fleiri leika í myndinni. Mikið er lagt upp úr gervum og eru framleiðendur myndarinnar með förðunarfræðinginn Petru Þórðardóttur á sínum snærum sem lærði fagið í Toronto og hefur séð um að gera allt saman ógeðslegt, eins og það á að vera.
Myndin er nær öll á ensku eða um 80% talaðs máls. Önnur samtöl fara fram á íslensku. Ástæðuna segir Marteinn vera þá að markaður fyrir hrollvekjur sé mikill erlendis, og þá sérstaklega þessi tegund mynda.
Í dag er staðan á verkefninu sú að búið er að taka upp 65% af myndinni. Sú staða er hins vegar komin upp að endurskrifa þarf endir myndarinnar og leikarar sem áttu að koma þar við sögu þurfa að deyja fyrr í myndinni. Ástæðan er að leikararnir þurfa að sinna öðrum verkefnum og geta ekki verið með til loka verkefnisins. Þeir verða því fyrir óvæntri uppvakningaárás og deyja skyndilega. Marteinn segir hins vegar að endir myndarinnar eigi eftir að verða betri við það að vera endurskrifaður. Ef leikararnir vilja svo koma aftur að myndinni geta þeir bara mætt sem uppvakningar, segir Marteinn og hlær.
Marteinn byrjaði að framleiða stuttmyndir með félögum sínum árið 1992. Þetta eru þeir Guðmundur Ingvar Jónsson og Halldór Jón Björgvinsson. Þeir leika báðir í Zombie Island og eru með puttana í framleiðslunni. Þeir stofnuðu á sínum tíma félagsskap sem heitir HAMAGU Pictures en framleiðslufyrirtækið Blue Diamond Productions framleiðir myndina.
Þar sem tökuliðið er í smærri kantinum taka allir á sig nokkur hlutverk. Halldór Jón er ásamt því að vera í öðru aðalhlutverki aðstoðarleikstjóri og sér um veitingar. Steinar hljóðmaður er einnig aðstoðartökumaður, runner og bílstjóri. Davíð Örn er sviðmyndahönnuður, umsjónarmaður leikmuna og allsherjar reddari. Leikstjórinn tekur að sér hljóðmanns hlutverkið og blandar sér í förðun og sviðsmyndaskreytingu þegar það vantar mannskap. Karl Newman er tökustjóri.
Marteinn er menntaður í kvikmyndagerð en hann fór í nám til London til þriggja ára eftir að hafa starfað fyrir RÚV og fleiri. Marteinn útskrifaðist árið 2005 með MA gráðu í kvikmyndagerð. Strax eftir skóla fór hann að vinna við gerð sjónvarpsauglýsinga og tónlistarmyndbanda. Hann hefur einnig gert heimildarmyndir og kynningarmyndir. Þá hefur hann unnið að kvikmyndum með öðrum en alltaf langað til að gera sína eigin kvikmynd. Hann er nú að láta þann draum verða að veruleika.
En hvernig er að taka upp kvikmyndir á Íslandi, þar sem það er glampandi sól og góðviðri annan daginn en súld hinn daginn? Marteinn er fljótur að svara því. Hann er fastagestur á veður.is og leitar uppi drungalega tökudaga, ef það eru útitökur. Síðan er farið í það að athuga hverjir komast. Sumir komast í dag, aðrir á morgun, þannig að við getum verið að taka upp samtalssenur þar sem leikari „A“ er að tala í dag, en það sem mótleikarinn segir getur verið tekið upp á morgun eða hinn.
Til stendur að klára Zombie Island í haust til að koma myndinni inn á svokallaðar Horror Fest kvikmyndahátíðir sem eru í október. Þannig hátíðir eru haldnar víða t.d. í Edinborg, Toronto og New York. Þá er einnig stór hátíð í Suður-Kóreu þar sem markaður fyrir svona myndir er gríðarstór. Hér heima á Íslandi er áætlað að frumsýna myndina í Keflavík þann 12. desember eða 12.12.12.