Blikið fer í Hljómahöll
-Með blik í auga haldið í níunda sinn
„Það er enginn leið að hætta,“ segir Kristján Jóhannsson einn forsvarsmanna Bliksins í samtali við Víkurfréttir. ,,Þetta er níunda árið okkar og í þetta skiptið einblínum við á níunda áratuginn. Wham, Duran Duran, Simple Minds, Madonna, Bruce Springsteen meðal annars og hæfilegt magn af gæsahúðar dúettum úr kvikmyndum tímabilsins og svo bara flott bland í poka.“
Að sögn Kristjans er undirbúningur kominn á fullt. Einvalalið söngvara tekur þátt að þessu sinni en þeir verða Jóhanna Guðrún, Hera Björk, Jógvan Hansen og Jón Jósep Snæbjörnsson.
,,Við biðum aðeins með að uppljóstra umfjöllunarefni sýningarinnar þetta árið en þettta verður negla. Oft höfum við lent í vandræðum með að skera þetta niður í hæfilegan fjölda laga en núna var þetta bara lögreglumál, ég meina, við höfðum um 1000 lög að velja og þurftum að skera niður í 25,“ segir Kristján og hlær. „Okkur þótti líka tilvalið að breyta um staðsetningu þetta árið. Andrews leikhúsið hefur verið heimili Bliksins í átta ár en nú verðum við í Stapa. Aðstaðan þar er fyrsta flokks. Allur tæknibúnaður til staðar og við göngum inn á tilbúið svið. Upp í Andrews þurfum við að koma með allt. Þar er ekkert til staðar, nema húsið. Við hlökkum mikið til samstarfsins við Tómas Young og hans fólk í Hljómahöll.“
Þar sem Stapi tekur færri tónleikagesti í sæti en Andrews verður fjöldi miða sem fer í sölu ekki eins mikill. Fólk er því hvatt til að bregðast hratt við þegar miðasala hefst.
Miðasala fer fram á Tix.is og Hljómahöll.is og verður nánar auglýst síðar.