Blik í auga litaði Ljósanótt
„Sumrinu var varið í ferðalög innanlands. Ég starfa sem leiðsögumaður meðfram vinnu minni hjá Njarðvíkurkirkjum. Ég er búinn að fara víða um land í sumar, þrisvar sinnum hringinn, einnig um Suðurland, Snæfellsnes og Vestfirði, auk ferða með fjölskyldunni,“ segir Kristján Jóhannsson um sumarið sem nú hallar að hausti. Kristján hafði það hlutverk margar undanfarnar Ljósanætur að vera kynnir á söngskemmtunum sem kenndar eru við Blik í auga.
Hvað stóð upp úr í sumar?
Ferð með hluta af fjölskyldunni um Syðra-Fjallabak í júlí. Konan mín, elsta dóttirinn og kærastinn hennar gengu Laugaveginn frá Landmannalaugum í Þórsmörk en ég keyrði á milli skála á jeppa með farangur og mat. Algjört ævintýri. Auk þess tólf daga ferð með útlendinga hringinn um landið með Vestfjörðum nýlega. Sú ferð var eftirminnileg sökum fjölbreytni.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Veðrið. Það var að vísu ansi blautt í júní hér á suðvesturhorninu en þá var brakandi blíða fyrir austan og norðan.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?
Þórsmörk hefur verið minn uppáhaldsstaður um árabil og það mun sennilega aldrei breytast. Þaðan eigum við fjölskyldan góðar minningar. Einnig finnst mér Snæfellsnesið þar sem viðSvanhildur giftum okkur 2002 alltaf heillandi sem og Reykjanesið. Við eigum hreint ótrúlega fallegt land og það eru enn staðir þar sem ég er að koma í fyrsta skipti og enn fleiri sem ég á eftir að heimsækja. Hef þó farið víða.
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Ég er búin að skrá mig í söngnám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eftir 25 ára hlé. Er þó búinn að vera syngjandi allan tímann. Ég geri ráð fyrir að taka eina og eina dagsferð með ferðamenn í vetur svona til að halda mér við og svo bara að sinna mínum störfum og reyna að láta gott af mér leiða. Svo bíða nokkur verkefni heimavið. Mér á pottþétt ekki eftir að leiðast.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ljósanótt hefur stimplað sig rækilega inn hjá okkur bæjarbúum. Ég var lengi beinn þátttakandi í skemmtanahaldi Ljósanætur ásamt félögum mínum í Blik í auga. Ljósanóttin var svolítið lituð af því verkefni – en Ljósanótt á og á að vera drifin áfram af krafti bæjarbúa. Við eigum að vera óhrædd að breyta til og brydda upp á nýjungum. Heimatónleikarnir og tónleikarnir í Holtinu eru gott dæmi um frumkvæði bæjarbúa. En satt best að segja er ég misupplagður í Ljósanótt. Var í engu stuði í fyrra og fór á fáa viðburði.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Veit það ekki ennþá. Ég ætlaði á tónleikana í Holtinu á föstudagskvöldinu en missti af miðasölunni. Þannig ef einhver á miða á þann viðburð sem hann þarf ekki að nota þá er ég til í að kaupa tvo!
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Mínar bestu minningar tengjast að sjálfsögðu Blik í auga tónleikunum sem gengu í tíu ár. Sú sýning þróaðist skemmtilega á þessum árum og við reyndum alltaf að gera betur en árið á undan. Svo er það stemmning tengd því að hitta fólk og sjá skemmtilegar sýningar.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Nei, ekki í seinni tíð. Fer eftir stemmningunni og verkefnastöðunni nú til dags.