Blásið til stórtónleika í Stapa
– Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og stjórnandi Lúðrahljómsveitar verkalýðsins, segist full tilhlökkunar fyrir tónleikum helgarinnar en þá mun Lúðrasveit verkalýðsins koma fram í Stapa ásamt fjórum einleikurum og Bjöllukór frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Það eru einleikararnir Bergur Daði Ágústsson (trompet), Guðjón Steinn Skúlason (saxófónn), Magnús Már Newman (slagverk) og Sara Dvjetkovic (píanó) sem munu koma fram sem einleikarar á tónleikunum. Þá mun Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spila með lúðrasveitinni en Karen er einnig stjórnandi kórsins.
Karen J. Sturlaugsson byrjaði að stjórna sinni fyrstu lúðrasveit sextán ára gömul en Karen, sem er fædd í Bandaríkjunum, ólst upp í kringum lúðrasveitir þar sem faðir hennar var lúðrasveitastjórnandi.
„Það var hálfkjánalegt en ég var nemandi í skólanum [High School] þar sem ég byrjaði að stjórna minni fyrstu lúðrasveit,“ segir Karen um það þegar henni var hent út í djúpu laugina, aðeins sextán ára gamalli, þar sem hún er enn að svamla. „Tónlistarkennari skólans hætti og þá var ég beðin að taka við sveitinni. Skólastjórnendur vissu svo sem að pabbi myndi styðja við bakið á mér en hann var mikill tónlistarmaður þótt hann starfaði sem lögfræðingur.“
Karen hefur helst fengist við að stjórna skólalúðrasveitum í gegnum tíðina samhliða kennslu, bæði hérlendis og í Bandaríkjunum, en hún hóf að kenna við Tónlistarskólann í Keflavík árið 1988 og var skólastjóri hans á árunum 1997 til 1999, síðan þá hefur Karen verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar síðan 1999.
Karen, sem er Listamaður Reykjanesbæjar, stjórnaði Léttsveit Tónlistarskólans í Keflavík, síðar Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, frá árinu 1988 til 2015 og er í dag stjórnandi Stórsveitar Suðurnesja. „Sem er Léttsveit „Old Boys“. Frábær hópur af fyrrverandi nemendum sem voru í Léttsveitinni hjá mér í gamla daga,“ segir Karen.
Hún stofnaði Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2012 og stjórnaði honum auk lúðrasveitum skólans til ársins 2015 en þá ákvað hún að einbeita sér að Bjöllukórnum og eftirlét öðrum lúðrasveitir skólans.
„Á þessum tíma vissi ég að gott fólk var til staðar til að taka við lúðrasveitunum en ég hélt áfram með bjöllukórinn,“ segir Karen sem tók svo við stjórn Lúðrasveitar verkalýðsins árið 2018.
Ánægjulegt samstarf Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Lúðrasveitar verkalýðsins
Í tilkynningu frá tónlistarskólanum segir að þessir tónleikar séu afrakstur ánægjulegs samstarfs Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Lúðrasveitar verkalýðsins undanfarna mánuði. „Fram koma einleikarar úr hópi lengra kominna nemenda skólans, sem og eldri Bjöllukór skólans sem er einnig í slíku hlutverki á tónleikunum. Það er frábært tækifæri og reynsla fyrir nemendur að fá að spreyta sig í einleikshlutverki með einni glæsilegustu og öflugustu lúðrasveit landsins og þess má geta að sum einleikshlutverkin eru frekar óvenjuleg með lúðrasveit.“
Aðgangur er ókeypis og Suðurnesjamenn sem og aðrir eru eindregið hvattir til að fjölmenna á tónleikana sem hefjast klukkan 16:00 sunnudaginn 27. nóvember í Stapa, Hljómahöll.