Bláa lónið styrkir Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins
Í ár studdi Bláa lónið Krabbameinsfélagið með þátttöku í átaksverkefnunum Mottumars og Bleiku slaufunni. Líkt og fyrri ár rann hluti af sölu sturtugels Bláa Lónsins í mars og varasalvans í október, til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.
Að þessu sinni söfnuðust 4.300.000 króna og hefur Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa Lóninu, afhent Krabbameinsfélaginu þá upphæð. Bláa Lónið hefur veitt stuðning við verkefni Krabbameinsfélagsins allt frá árinu 2015.
„Átaksverkefni Krabbameinsfélagsins eru mikilvæg samfélagsverkefni sem við hjá Bláa Lóninu erum stolt af að taka þátt í. Það er okkur sönn ánægja að geta veitt fjárstuðning sem þennan, enda mikilvægt að styðja við og efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum. Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vel til þess fallinn að halda utanum um þær,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.
„Stuðningur Bláa lónsins hefur verið okkur mjög mikilvægur. Stuðningurinn gerir okkur kleift að styðja við enn fleiri rannsóknir til að ná sem mestum árangri í baráttunni við krabbamein á Íslandi.“ segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.
Um Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins:
Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferðum og lífsgæðum sjúklinga.
Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá 2017 til 2022, veitt 71 styrk, alls 384 milljónir króna, til 41 rannsókna og hefur Bláa lónið verið einn af helstu stuðningsaðilum sjóðsins allt frá stofnun hans árið 2015.