Bláa Lónið með í Airwaves frá upphafi
1500 gestir hlustuðu á tónlist í Lóninu
Bláa Lónið hefur verið hluti af tónlistarhátíðinni vinsælu, Iceland Airwaves, allt frá upphafi og verið eini staðurinn utan höfuðborgarsvæðisins sem hefur tekið þátt í fjörinu allt frá árinu 1999. Á hátíðinni í ár komu daglega um 500 manns í sal veitingastaðarins LAVA, yfir þá þrjá daga sem hátíðin stóð.
Bláa Lónið hefur verið hluti af Airwaves tónlistarhátíðinni allt frá árinu 1999 þegar Airwaves var haldið í fyrsta sinn. Sá viðburður var upphaflega hugsaður fyrir blaðamenn og starfsmenn útgáfufyrirtækja sem komu hingað til lands. „Við tókum vel í hugmyndina og settum upp tónlistarviðburð þar sem hljómsveitin Fálkar frá Keflavík kom fram og vakti mikla lukku á meðal gesta. Fleiri góðir tónlistarmenn hafa komið fram á Airwaves í Bláa Lóninu en viðburðurinn hefur vaxið og dafnað með fyrirtækinu. Fyrstu árin voru það fyrst og fremst boðsgestir sem komu á tónleikana en fljótlega var farið að bjóða upp á pakka fyrir almenna gesti hátíðarinnar,“ segir Magnea Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Bláa Lónsins.
Ferðaþjónustan hefur notið góðs af Airwaves og einmitt þess vegna kom Bláa Lónið að hátíðinni á sínum tíma. „Það hefur skipt okkur miklu máli að taka þátt í hátíðinni. Hingað höfum við boðið blaðamönnum í gegnum árin og þannig stuðlað að landkynningu í gegnum Airwaves. Þannig vekjum við áhuga á Íslandi fyrir tónlistina. Þá finnst mér svo vel við hæfi að hafa svona viðburð hérna í Bláa Lóninu af því að Suðurnesin eru auðvitað stórveldi í tónlist,“ segir Magnea.
Hljómsveitirnar Kaleo, Agent Fresco og Moses Hightower komu fram á viðburðinum Blue Lagoon Chill í ár. Um 1500 manns kíktu í Lónið á vegum Airwaves.