Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Björgvin og Valdimar eru Eldar
Þriðjudagur 23. ágúst 2011 kl. 11:37

Björgvin og Valdimar eru Eldar

Landsmenn virðast ekki fá nóg af Valdimar Guðmundssyni enda hefur kappinn verið ansi áberandi í tónlistarlífinu þetta árið. Hljómsveitin Valdimar þar sem Valdi er í fararbroddi hefur verið að gera það gott en einnig hefur hann sungið titillag kvikmyndarinnar Okkar eigin Osló sem naut mikilla vinsælda og svo hefur lagið Það styttir alltaf upp með Valda og Baggalúti fengið að hljóma ótt og títt í útvarpinu. Svo er blaðamaður ekki frá því að hann hafi þekkt rödd Valda í Hagkaupsauglýsingu þar sem hann spreytir sig á lagi Magnúsar Eiríkssonar Ef þú ert mér hjá.

Þannig að það er lítið um frí hjá Valdimar Guðmundssyni en hann og gítarleikarinn og upptökuprinsinn Björgvin Ívar Baldursson eru þessa dagana að leggja lokahönd á samstarfsverkefni sitt sem við greindum frá fyrr í vor og hafði ekki enn fengið nafn. Nú er nafnið komin og heitir dúóið Eldar.

Valdimar segir nafnið hafa orðið til í einhverju bulli. „ Við vorum bara að hugflæða eitthvað og ég held að ég hafi sagt eldur og Björgvin sagði eldar, við stoppuðum við það,“ segir Valdimar Guðmundsson söngvari og bætti því við að þetta væri hálf móðukennt eitthvað en þeir væru virkilega sáttir með nafnið. „Platan er komin langt á veg en það er alltaf einhver smáatriði eftir. Þetta verður bara tilbúið þegar þetta er tilbúið,“ segir Valdimar að lokum í samtali við vf.is.

Mynd: Þorri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024