Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bjargaði lambi úr háska
Ómar brást skjótt við og bjargaði lambinu úr háska.
Miðvikudagur 9. júlí 2014 kl. 10:29

Bjargaði lambi úr háska

Ómar Þór dró lamb úr mýri og baðaði í heitum læk

Keflvíkingurinn Ómar Þór Kristinsson gerði sér lítið fyrir og bjargaði varnarlausu lambi úr mýri á dögunum. Ómar var á göngu niður Reykjadal fyrir ofan Hveragerði þegar hann heyrði í lambinu jarma, en aðeins hausinn á lambinu stóð upp úr mýrinni þegar Ómar kom að.

„Við félagi minn vorum með hóp af ferðamönnum á göngu þegar einn úr hópnum heyrir jarm. Ég heyri það einnig en sé hvergi kind. Ég labba þá aðeins inn á tún þarna rétt hjá og tek þá eftir að þetta er mest megnis mýri. Ég ætla að snúa við þegar lambið jarmar bara við hliðina á mér, lambið var fast ofan í holu og bara hausinn stóð upp úr,“ segir Ómar. Rúmlega 50 manna hópur ferðamanna, flestir Bandaríkjamenn, voru alsælir með þessa upplifun og klöppuðu Ómari lof í lófa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ómar þurfti að leggjast á magann og grípa í hornin á lambinu en hann fékk svo annan mann til að toga í fæturna á sér. Þannig náði hann að mjaka lambinu úr leðjunni. „Lambið var svo út atað í leðju að ég tók það í lækinn og skolaði af því,“ segir Ómar. Lækurinn er heitur og er vinsælt meðal ferðalanga að koma þangað og baða sig. Þegar lambið hafði fengið hressandi bað lagði Ómar það í grasið. „Svo byrjaði lambið að borða á fullu og eftir nokkrar mínútur var hún orðin hress og farin að spóka sig um þarna í kringum okkur,“ segir bjargvætturinn í samtali við Víkurfréttir.

Ómar fór rakleiðis í lækinn og baðaði lambið.