Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Birna Helga með hæstu einkunn í FS
Aðalheiður Gunnarsdóttir, Andri Þór Skúlason, Birna Helga Jóhannesdóttir, Dúx, Eyþór Ingi Júlíusson, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Lilja María Stefánsdóttir, Petra Rut Rúnarsdóttir, Soffía Klemenzdóttir, Telma Rún Rúnarsdóttir fengu viðurkenningar á athöfnin
Fimmtudagur 20. desember 2012 kl. 11:27

Birna Helga með hæstu einkunn í FS

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í gær, miðvikudaginn 19. desember..

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í gær, miðvikudaginn 19. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 73 nemendur; 60 stúdentar, tveir sjúkraliðar, níu úr verknámi og tveir úr starfsnámi. Konur voru 49 og karlar 24. Alls komu 49 úr Reykjanesbæ, 7 úr Grindavík, 6 úr Vogum og þrír komu úr Garði og Sandgerði.  Auk þess kom einn frá Höfn í Hornafirði, einn úr Hafnarfirði, einn frá Ísafirði og einn úr Hrútafirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Gunnhildur Gunnarsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Rósa Sigurðardóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en Bjöllukór Tónlistarskólans lék við upphaf athafnarinnar undir stjórn Karenar Sturlaugsson. Ragnheiður Eir Magnúsdóttir nýstúdent lék á flautu og Þórarna Salóme Brynjólfsdóttir nýstúdent á baritonhorn ásamt Bjöllukórnum. Steinunn Björg Ólafsdóttir nýstúdent söng en með henni lék Karen Sturlaugsson á píanó.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Gunnhildur Gunnarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Telma Rún Rúnarsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í sálar- og uppeldisfræði og Petra Rut Rúnarsdóttir og Lilja María Stefánsdóttir fyrir spænsku. Eyþór Ingi Júlíusson fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í eðlis- og efnafræði og í þýsku. Andri Þór Skúlason fékk áritaða bók frá Páli Kr. Pálssyni fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og hann fékk einnig verðlaun fyrir árangur sinn í spænsku. Birna Helga Jóhannesdóttir fékk verðlaun frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði, spænsku, ensku og í viðskipta- og hagfræðigreinum. Hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Soffía Klemenzdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, spænsku, eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði og hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá danska sendiráðinu fyrir árangur í dönsku. Aðalheiður Gunnarsdóttir fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði en auk þess fékk hún viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í spænsku, raungreinum, efnafræði og stærðfræði.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi.  Að þessu sinni fengu Alexandra Sæmundsdóttir, Bertmari Ýr Bergmannsdóttir, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir og Sigríður Guðbrandsdóttir allar 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.

Landsbankinn veitti nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Björn Kristinsson þær fyrir hönd bankans. Birna Helga Jóhannesdóttir fékk verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku og hún fékk einnig verðlaun fyrir bestan árangur í erlendum tungumálum. Þær Aðalheiður Gunnarsdóttir og Soffía Klemenzdóttir fengu báðar verðlaun fyrir árangur í stærðfræði og raungreinum. Birna Helga Jóhannesdóttir fékk síðan verðlaun fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en þess má geta að hún lauk stúdentsprófinu á aðeins tveimur og hálfu ári. Að lokum sleit Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari haustönn 2012.


73 nemendur útskrifuðust í gær.


Björn Kristinsson, frá Landsbankanum í Reykjanesbæ, veitti nemendum verðlaun fyrir góðan námsárangur.


Alexandra Sæmundsdóttir, Bertmari Ýr Bergmannsdóttir, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir og Sigríður Guðbrandsdóttir fengu allar 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.