Birgitta opnar heilsumiðstöð að Hafnargötu 48a - opið hús í dag
Birgitta Jónsdóttir Klasen hefur opnað Heilsumiðstöð Birgittu að Hafnargötu 48a í Keflavík. Í nýju heilsumiðstöðinni mun Birgitta stunda náttúrulækningar, þrýstipunktameðferð, heilsunudd, reiki, svæðanudd fyrir giktarsjúklinga, næringarráðgjöf fyrir börn og unglinga og ráðgjöf fyrir unglinga.
Í nýju heilsumiðstöðinni er aðstaða fyrir fyrirlestra og námskeið og í vetur verða fjölbreytt námskeið hjá Birgittu, m.a. um næringu og heilsu.
Birgitta mun bjóða upp á ZILGREI, sem er meðferð í öndun og líkamsbeitingu. Þetta er nýtt á Íslandi en í þessari meðferð hefur Birgitta kennsluréttindi en hún hefur einnig kennsluréttindi í svæðameðferð, sem verður boðið uppá í haust í „Nuddskóla Suðurnesja“ hjá Birgittu svo allir geti nuddað börnin, hvort sem það eru mamma og pabbi, amma eða afi.
Birgitta býður upp á gjafabréf fyrir allskonar tilefni og tækifæri fyrir alla fjölskylduna. Þá er í boði detox-nudd sem samsett er af fjórum skiptum á tveimur vikum til þess að hreinsa bæði sálina og líkamann.
Heimaþjónusta verður áfram í boði hjá Birgittu fyrir einstaklinga sem ekki eiga heimangengt.
Þá ætlar Birgitta einnig að bjóða upp á ókeypis þýskukennslu fyrir unglinga einu sinni í viku en Birgitta var búsett í Þýskalandi í 50 ár og telur sig geta miðlað af þekkingu sinni í tungumálinu til unglinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í þýskunámi, hvort sem er í efstu bekkjum grunnskóla eða í framhaldsskóla. Fyrsti tíminn verður 6. október nk. kl.15:00.
Birgitta útskrifaðist sem náttúrulæknir (HP) frá þýskum háskóla árið 1973 og er einnig menntuð í sálfræðilegri ráðgjöf og félagsráðgjöf fyrir konur. Hún er auk þess með kennsluréttindi og hefur meðal annars kennt svæðameðferð og öndunarmeðferð við ýmsa háskóla í Þýskalandi og var gestadósent við Volkshochschule Cuxhaven 1990-1996.
Birgitta hefur gefið út tvær bækur. Þær heita Læknum með höndunum sem var í 13 vikur á metsölulistum og Demantur - bók fyrir börn, unglinga og fjölskyldur. Þá bók má nálgast ókeypis hér.
Í tilefni af opnun Heilsumiðstöðvar Birgittu verður opið hús í dag, föstudag, frá 14:00-16:00.
Tímapantanir og nánari upplýsingar hjá Birgittu Jónsdóttur Klasen í síma 847 6144 eða með tölvupósti [email protected].