Birgitta berst um sigur í fyrirsætukeppni
Keflvíkingurinn Birgitta Ósk Pétursdóttir er 19 ára stelpa sem fyrir stuttu steig sín fyrstu skref í fyrirsætubransanum. Um þessar mundir tekur hún þátt í lokaúrslitum fyrirsætukeppni á vegum vefritsins Not Just Fashion og berst um sigurinn við aðra fyrirsætu frá Kúbu. Birgitta var í stuttu spjalli á vefsíðunni pjattrofurnar.is.
Það segir m.a. frá því að Birgitta skrifaði nýlega undir árs samning við Hollenska umboðskrifstofu, Fourteen models. Hún er einnig á skrá á skrifstofum í bæði Danmörku og Þýskalandi: „Ég er að fara á tvo fundi núna í Barcelona, myndartöku og hitti síðan eiganda Modelmanagement.com og hlakka mikið til,“ segir Birgitta í viðtalinu.
Ferill Birgittu hófst með því að hún tók þátt í Elite Model Look keppninni í fyrra og hefur hún haft í nógu að snúast síðan þá. Birgittu dreymir um að geta ferðast um heiminn við fyrirsætustörfin, fengið að kynnast nýju umhverfi, skemmtilegu fólki og auka reynsluna.
„Ég sá keppnina auglýsta og ákvað að prufa að senda inn myndir en bjóst alls ekki við því að fá að taka þátt þar sem þetta er alþjóðleg keppni og margar gullfallegar stúlkur hafa reynt að komast að.“
Er til mikils að vinna?
„Já það myndi ég svo sannarlega segja. Vinningurinn er ferð til Cannes í nokkra daga þar sem tvö módel (strákur og stelpa) eyða nokkrum dögum í fallegri höll og fara svo í myndartöku fyrir blað. Auk þess hafa margar umboðsskrifstofur haft samband við mig meðan ég hef verið í keppninni.“
Hægt er að kjósa Birgittu með því að smella hér.
Tengdar fréttir: „Fæ gæsahúð þegar ég hugsa um tískupallana“ VF viðtal.