Birgir Olsen tendraði jólaljósin í Sandgerði
Mikill fjöldi fólks fylgdist með þegar Birgir Olsen, nemandi í 1.bekk tendraði jólaljósin á jólatrénu í Sandgerði sl. laugardag.
Kynnir við athöfnina var Guðjón Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóri Grunnskólans. Dagskráin hófst á ávarpi Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar en svo kom yngri skólakór grunnskólans og flutti nokkur jólalög fyrir gesti þar sem Júlíus Viggó Ólafsson var með einsöng. Undir söng krakkana spiluðu Hobbitarnir, en það eru þeir Ólafur Þór Ólafsson og Hlynur Þór Valsson.
Stekkjastaur mætti á svæðið og gladdi ungu krakkana með nammi í poka á meðan Hobbitarnir tóku nokkur lög. Foreldrafélag Grunnskólans í Sandgerði bauð gestum upp á heitt súkkulaði og piparkökur sem Sandgerðingar gátu gætt sér á í kuldanum.
VF-Myndir/siggijóns
Stekkjastaur mætti til að gleðja börnin.
Júlíus Viggó Ólafsson söng einsöng með barnakórnum.
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðis flutti ávarp.
Jólaljósin tendruð á jólatrénu við sundlaugina í Sandgerði.
Foreldrafélag Grunnskólans gaf gestum og gangandi heitt súkkulaði og piparkökur.