Bíósalurinn í notkun á Ljósanótt 2006
Áætlað er að Bíósalurinn sem er við hliðina á Poppminjasafninu í Duushúsum í Reykjanesbæ verði tekinn í gagnið á Ljósanótt 2006. Framkvæmdir standa nú yfir í salnum en bíósalurinn er einn elsti bíósalur landsins síðan Fjalarkötturinn í Reykjavík var rifinn árið 1984.
Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að ásamt bíósýningum yrði gert ráð fyrir blandaðri menningarstarfsemi, kynningarsýningum, fyrilestrum og mörgu öðru í bíósalnum þegar hann væri tilbúinn til notkunar.
„Sökum fjölbreytni Duushúsanna er hver salur í lengjunni sérstakur á sinn eigin hátt og fjölbreytni í hverjum sal ýtir undir fjölbreytileikann í menningarstarfseminni. Mismunandi salir kalla á mismunandi hugmyndir,“ sagði Valgerður.
Bíósalurinn er fjórði salurinn sem tekinn verður í notkun í Duushúsalengjunni en enn er ein bygging ónotuð en það er elsta bygging og jafnframt ein merkilegasta bygging hússins sem er á þremur hæðum og reist var árið 1877. Það mun vera bryggjuhúsið, gamalt pakkhús, en tekið verður við að gera það upp þegar Bíósalurinn verður kominn á laggirnar.
VF – myndir/ Þorgils Jónsson: Neðsta myndin er af Fjalakettinum, fyrsta bíóhúsi landsins.