Bing Crosby á Vellinum og Thors í Fríhöfninni
Fjöldi skemmtilegra mynda á ljósmyndasýningu í Bíósal Duus húsa í Reykjanesbæ.
Það hafa ófáir frægir stigið sín fyrstu skref á Íslandi þegar þeir hafa komið út úr flugvélum á Keflavíkurflugvelli. Heimis Stígsson „hirðljósmyndari“ Keflavíkur og nágrennis í áratugi tók slatta af myndum af frægum sem lentu á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma.
Heimir heitinn var duglegur með myndavélina og sýning honum til heiðurs hefur verið í bíósal Duus-húsa í Reykjanesbæ undanfarnar vikur og eins má sjá myndir þar á tölvuskjám sem Heimir heitinn tók á sínum langa og farsæla ljósmyndaferli.
Myndin af Bing Crosby er skemmtileg en líka myndin af Ólafi Thors sem kom til Keflavíkurflugvallar í erindagjörðum fyrir áratugum síðan. Á myndinni sést vel merking Fríhafnarverslunarinnar sem þá var vinsæl í gömlu flugstöðinni, ekki síður en í dag.
Fjöldi fleiri skemmtilegra mynda er hægt að sjá frá ferli Heimis og eru Suðurnesjamenn hvattir til að leggja leið sína í Duus-hús til að berja þau augum.
Ólafur Thors ráðherra Suðurnesjamanna í fjöri með fólks á Keflavíkurflugvelli. Duty Free (Fríhöfnin) skiltið er flott á gömlu flugstöðinni.
Hér er mynd af tendrun jólatrés í Keflavík fyrir áratugum síðan. Þeir sem vita hvenær mega endilega skrifa um það á Facebook síðu Víkurfrétta.
Hópur fólks fyrir framan Keflavíkurkirkju.