Betsý Ásta sigraði í Stóru upplestrarkeppninni
Betsý Ásta Stefánsdóttir nemandi í Akurskóla sigraði á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór í Bergi Hljómahöll í lok febrúar. Í öðru sæti var Jón Arnar Birgisson nemandi í Holtaskóla og í þriðja sæti var Lovísa Grétarsdóttir nemandi í Njarðvíkurskóla
Stóra upplestrarkeppnin var nú haldin í 21. sinn á Suðurnesjum. Að venju var hátíðin hin glæsilegasta. Í bland við fallegan upplestur var boðið upp á hugljúfa tóna frá nemendum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Alls 14 nemendur úr 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og Sandgerðis tóku þátt í lokakeppninni. Fyrst lásu nemendur textabrot úr sögu eftir Sigrúnu Eldjárn og ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Að lokum lásu nemendur ljóð að eigin vali. Í dagskrálok flutti Helgi Arnarson sviðsstjóri ávarp og veitti öllum þátttakendum bókagjafir.