Bestu æskuminningarnar af Kirkjuteignum
Kristín Þórunn Kristinsdóttir sendir frá sér barnabók.
Kristín Þórunn Kristinsdóttur hefur skrifað sögur og ljóð frá unga aldri og er með fjörugt ímyndunarafl. „Ég teiknaði heilu teiknimyndasögurnar og stóð meira að segja í blaðaútgáfu með vinkonum mínum,“ segir hún og hlær. „Það var reyndar mjög skrautleg tímaritaútgáfa þar sem við handskrifuðum nokkur eintök sem voru öll alveg eins. Við fengum gefins afgangspappír í Grágás og fórum í hús og reyndum að selja. Mig minnir að blaðið hafi heitið Krakkablaðið. Ég man ekki hvernig það tókst til en þetta var eins konar okkar útgáfa af ABC tímaritinu. Ég hef alltaf verið mjög bókelsk og lesið mikið.“
Mamma Kristínar er úr Kjós og pabbi hennar frá Ólafsvík en Kristín ólst upp í Keflavík. Lengst af bjó hún við Kirkjuteig og á sínar bestu æskuminningar þaðan. „Þar hópuðumst við krakkarnir saman í útileiki eins og eina krónu og kallinn í tunglinu og söfnuðum reglulega í tombólu. Það var gott og öruggt að alast upp í Keflavík.“ Þegar Kristín var níu ára gömul ákvað hún að verða kennari, rithöfundur og arkitekt. „Arkitektadraumurinn hefur þurft að lúta lægra haldi en ég elska kennarastarfið. Þörfin til að skrifa sögur fyrir börn kviknaði einmitt fyrst þegar ég var að kenna við Njarðvíkurskóla.“
Barnabækur eiga að vera grípandi
Bók Kristínar sem kom út á dögunum fjallar um dapran lítinn draugastrák sem býr einn í yfirgefnu draugahúsi. Hann lendir í ýmsum uppákomum þar sem þjófar, óþekktarormar og norn koma við sögu. „Mér finnst að barnabækur eigi fyrst og fremst að vera grípandi og skemmtilegar. Ef hægt er að koma góðum boðskap áleiðis og gefa tilefni til að ræða hann eftir lesturinn þannig að sagan skilji eitthvað eftir sig þá er það ennþá betra,“ segir Kristín. Hún sendi frá sér bókina Ferðalag Freyju framtannar árið 2013 og fjallaði hún á ævintýralegan hátt um tennurnar og tannheilsu. Kristín kveðst hafa fengið mjög góðar móttökur þegar sú bók kom út en bókin var seld á marga leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Í bókinni um draugastrákinn dapra er boðskapurinn meðal annars sá að ekki eigi að dæma eftir útlitinu og segir Kristín það gefa tilefni til að ræða um einelti og mismunandi tilfinningar við börnin.
Kristín fær margar hugmyndir í kollinn en hugmyndin að sögunni um dapra draugastrákinn skar sig úr því hún fékk ekki frið fyrir henni og settist því að lokum niður og byrjaði að skrifa. „Mér finnst ekki svo erfitt að skrifa, það kemur frekar auðveldlega hjá mér að skapa söguna sjálfa en svo er auðvitað heilmikil vinna eftir á við að fínpússa textann og svoleiðis.“ Það er Óðinsauga útgáfa sem gefur bókina út, eins og þá fyrri. „Ég hef verið svo lánsöm að útgáfufyrirtæki sjá eitthvað grípandi við sögurnar mínar og vilja gefa þær út. Myndskreytari er Lukas Banas sem starfar fyrir Óðinsauga. Ég fékk sýnishorn frá nokkrum myndskreyturum og Lukas varð fyrir valinu. Hans hlutverk er að teikna myndirnar eftir mínum lýsingum og það gerir hann mjög vel, myndirnar eru alveg eins og ég sá fyrir mér þegar ég skrifaði söguna.“ Kristín segir það skemmtilegasta við vinnu barnabókar að sjá myndirnar sem hún sá fyrir sér verða að veruleika.
Langar að flytja aftur til Íslands
Kristín og fjölskylda bjuggu í Noregi í fjögur ár en eru nýflutt til Danmerkur. Eiginmaður Kristínar er Rúnar Þór Guðmundsson, tenór söngvari og húsasmiður. Eftir bankahrun var hann án vinnu og fékk boð um að vinna í Noregi. Nú er Rúnar í byggingafræðinámi í Danmörku. Í Noregi söng Rúnar mikið samhliða smíðastarfinu og fær ennþá beiðnir um að koma til Noregs í ýmis söngverkefni. Úti hefur Kristín bæði unnið sem kennari og sjúkraliði en ætlar í meistaranám í kennslufræðum eftir áramót. Hún segir tímann í Noregi hafa verið yndislegan. „Norskt samfélag er svo heilbrigt, réttlátt og fallegt. Ég hef minni reynslu af Danmörku eins og er en þar er líka gott að vera og mikið um að vera fyrir fjölskyldufólk.“ Þau hafa tekið þá ákvörðun að flytja aftur heim til Íslands að námi loknu. „Rúnar hlakkar mikið til að syngja aftur fyrir Suðurnesjabúa og ég hlakka til að fara að kenna íslensku aftur. Þó að það sé dýrmæt upplifun að búa erlendis finnst okkur samt best að vera heima á Íslandi þar sem fjölskyldan og vinirnir eru.“
Síðustu fjögur ár hefur fjölskyldan verið í Noregi yfir jólin og segir Kristín jólahefðirnar þar ekki ósvipaðar þeim íslensku. „Norðmenn borða svokallað pinnakjöt á aðfangadag sem er saltað og reykt lambakjöt, borið fram með súrkáli og rófustöppu. Okkur hefur fundist notalegt að vera ein fjölskyldan á jólunum þó að við höfum saknað jólaboðanna heima. Gamlárskvöldin eru auðvitað flottust á Íslandi og nánast ekkert skotið upp í Noregi miðað við Ísland. Það verður spennandi að upplifa dönsk jól i ár. Mér skilst að Danir skreyti mikið en strax á annan í jólum er allt jólaskrautið tekið niður og áramótaskrautið sett upp.“ Kristín og fjölskylda halda sig við íslensku jólahefðirnar og setja jólatréð upp á Þorláksmessu og taka það og skrautið ekki niður fyrr en á þrettándanum. Hún kemur í aðventuheimsókn til Íslands í næstu viku og ætlar þá að halda útgáfuteiti vegna bókarinnar.
Kristín segir ekki mikið upp úr því að hafa fjárhagslega að skrifa barnabækur, enda geri hún þetta því henni finnist það gaman og gefandi. „Það þurfa að seljast margar bækur til að ég fái einhver höfundarlaun í minn vasa. Útgefandinn þarf auðvitað fyrst að standa straum af útgáfukostnaði, auglýsingum og slíku. Í þetta skiptið setti ég í útgáfusamninginn að fái ég einhver höfundarlaun þá renni þau til Umhyggju, styrktarsjóðs langveikra barna. Þetta er mitt tækifæri til að láta gott af mér leiða. Ég er svo lánsöm að eiga fimm heilbrigð börn og geri mér grein fyrir að það er mikil blessun. Ég vona svo sannarlega að bókin seljist það vel að Umhyggja njóti góðs af.“