Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Beinskeitt og fyndið verk
Fimmtudagur 6. mars 2008 kl. 12:13

Beinskeitt og fyndið verk

Leikfélag Keflavíkur frumsýnir revíuna „Bærinn breiðir úr sér“, annað kvöld. Breiðbandið óborgnalega samdi verkið en Helga Braga Jónsdóttir er leikstjóri. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Helgu og spurðu hana út í sýninguna og vinnuna með leikfélaginu.


„Við erum búin að vera að vinna að sýningunni síðan í byrjun árs og nú er allt eins og það á að vera rétt fyrir frumsýningu,“ segir Helga, en hún hefur áður unnið með Leikfélagi Keflavíkur. Hún leikstýrði einnig revíunni „Í bænum okkar er best að vera“, sem Ómar Jóhannsson, heitinn, samdi og leikfélagið setti upp haustið 2002.
„Hún gekk rosalega vel, ég held að það hafi verið um 20 sýningar og þvílíkt megastuð! Í þeirri sýningu voru líka þeir Ómar og Rúnar úr Breiðbandinu þannig að ég þekkti þá og hef líka verið að skemmta á sömu stöðum og Breiðbandið þannig að ég veit vel hvað þeir eru fyndnir. Samt kom það mér rosalega á óvart, þegar við vorum að lesa verkið fyrst, hvað þetta er ofsalega fyndið, beinskeitt og alveg magnað. Svo kom ég líka með minn trylling inn í þetta allt saman, hugmynd að öðru lokaatriði og þess háttar, þannig að við höfum bætt hvort annað upp.“


Auk Helgu Brögu og Breiðbandsins koma að sjálfsögðu fleiri að undirbúningi. Þar á meðal eru þau Josy Zareen, magadansari, sem semur dansana, og Júlíus Freyr Guðmundsson sem er tónlistarstjóri.
„Það er fagfólk í hverju rúmi og það eru nokkur númer hjá okkur sem eru æðisleg,“ segir Helga. „Við sýndum eitt atriði á árshátíð Reykjanesbæjar og það var rosalega gaman. Það er svo flott og grand að það minnir mann á atriði úr Chicago.“
Hún bætir því við að hópurinn hafi staðið sig frábærlega í undirbúningnum. „Ég er náttúrulega búin að hamast mikið í þeim, en þau er svo ákveðin og einbeitt.“


Rúmlega 20 manns stíga á svið í uppfærslunni og má segja að færri hafi komist að en vildu því Helga og Júlíus þurftu að velja fólk úr stórum hópi áhugasamra sem vildu ólm komast á svið og leika.
„Það var meira að segja mikið af karlmönnum sem mætti í prufurnar. Kannski er það ég sem er að trekkja… ég veit ekki!“ bætir Helga við og hlær.


Þó verkið fjalli vissulega um málefni tengt Reykjanesbæ og Suðurnesjum var þess vandlega gætt að utanaðkomandi geti vel farið á sýninguna og hlegið dátt eins og hver annar. „Það eiga allir að geta skemmt sér rosalega vel og svo er verkið fyrir alla fjölskylduna, bæði börn og fullorðna,“ segir Helga að lokum.


Eins og áður kom fram er frumsýning annað kvöld og er uppselt á hana, en önnur sýning verður á sunnudag. Frekari upplýsingar um sýningar og miðasölu má finna í auglýsingu í Víkurfréttum í dag.

 

VF-mynd/Hilmar Bragi - Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi og athafnamaður, og Valgerður Guðmundsdóttir, menningarstjóri Reykjanesbæjar, eru meðal þeirra sem eru tekin fyrir í revíunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024