Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 12. mars 2002 kl. 13:13

Bátasafnið í Duus húsum opnað í maí

Hópur manna sem á einhvern hátt hafa tengst sjávarútvegi og sjósókn hafa stofnað hollvinafélag bátasafns Gríms Karlssonar. Bátafélagið eins og félagsskapurinn kallar sig, leggur mikla áherslu á það að safnið verði sem glæsilegast og aðgengilegast fyrir fólk á öllum aldri. Það var fyrir tilstuðlan Bátafélagsins að Reykjanesbær festi kaup á bátunum hans Gríms . Bátafélagið sótti um styrk til Ríkisins í fyrra og fékk 8,5 milljónir og kom þannig 58 bátum undir sama þak, en það er svo Reykjanesbær sem kostar allan frágang hússins sem hýsir bátaflotann.
Bátafélagið hélt kynningarfund í morgun í Duus húsum og kynntu þar fjáröflun sem félagið er að fara í gang með. Stefnan er sett á að safna fimm milljónum svo hægt verði að ganga vel frá safninu og sagði Hafsteinn Guðnason að þetta væri herslumunurinn sem þeir væru að safna saman núna. „Það vantar herslumuninn, Reykjanesbær og Ríkið hafa stutt vel við bakið á þessu verkefni en nú vantar bara að styrkja fræðsluþáttinn og svo höfum við áhuga á að opna heimasíðu fyrir safnið". Í bréfi sem Bátafélagið hefur sent í fyrirtæki segir, að þegar Grímur hélt sýningu á hluta bátanna hafi komið 7000 manns á sýninguna sem sýni vel áhuga fólks á viðfangsefninu. Bátafélagið hefur sent bréf í fyrirtæki á svæðinu þar sem falast er eftir fjárstuðningi til verkefnisins. Eins hefur verið stofnaður reikningur í Sparisjóði Keflavíkur i nafni Bátasafns Gríms Karlssonar, Reikningurinn er á kennitölu Reykjanesbæjar 470794-2169 og reikningsnúmerið er 4192.
Bátasafnið verður opnað í vor en dagsetningin er ekki ákveðin, Hafsteinn sagðist vonast til að það yrði opnað 11. maí sem er gamli hefðbundni lokadagur vetrarvertíðar. Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar segist mjög ánægð með framtak Bátafélagsins og segir að á sjómannadaginn verði dagskrá í bátasafninu í Duus húsunum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024