Bassaleikarinn Þorgrímur mætir með kvartett sinn til Jazzfjelags Suðurnesjabæjar
Bassaleikarinn Þorgrímur Jónsson leikur með kvartett sínum í bókasafninu í Sandgerði miðvikudaginn 9. mars næstkomandi. Kvartettinn gaf nýverið út hljómplötuna Hagi sem hefur verið að fá glymrandi góðar viðtökur víðsvegar um heim. Kvartettinn hefur ekki leikið þetta efni síðan á síðastliðinni djasshátíð svo um að gera að láta þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara.
Auk Þorgríms, sem leikur á raf- og kontrabassa, eru með honum gítarleikarinn Rögnvaldur Borgþórsson, píanó- og allskonarleikarinn Tómas Jónsson og Magnús Tryggvason Eliasen á trommur.
Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og samkvæmt venju er aðgangur ókeypis.