Bassaleikari Mezzoforte flutti í sveitasæluna í Sandgerði
Öllu tónlistarfólki stendur til boða að taka sitt eigið lag upp, hjá og með feðgunum Jóhanni Ásmundssyni, bassaleikara Mezzoforte, og syni hans, trommuleikaranum Ásmundi.
„Það var gaman að geta hannað þetta stúdíó sem við nefndum eftir einni af hljómsveitum Péturs, Paradís, nákvæmlega á þann máta sem við töldum að væri best. Hér getur hljómsveit verið öll að spila í einu, allir eru bara með sín heyrnartól og andinn verður alltaf mjög góður. Ég segi oft í gríni að Pétur er hér með okkur þegar góðir hlutir eru að gerast í tónlistarsköpun,“ segir bassaleikarinn góðkunni úr Mezzoforte, Jóhann Ásmundsson, en hann hefur rekið hljóðverið Paradís ásamt Ásmundi syni sínum síðan 2012. Feðgarnir fluttu stúdíóið í Sandgerði í fyrra og þar býr Jóhann ásamt Sigrúnu Kristjánsdóttur, eiginkonu sinni, og una hjónin sér vel í sjávarloftinu.
Tengdaforeldrar Jóhanns voru tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson (KK-sextett) og Erla Wigelund, kennd við Verðlistann. Fyrir þá sem ekki vissu var Pétur Kristjánsson, popptónlistarmaður, sonur þeirra og þ.a.l. mágur Jóhanns. Jóhann og Sigrún höfðu alla sína hunds- og kattartíð búið á höfuðborgarsvæðinu eða í Englandi þegar hljómsveitin Mezzoforte var við þröskuld heimsfrægðarinnar. Fjölskyldan hafði alltaf átt sumarbústað á æskuslóðunum. „Tengdapabbi var fæddur og uppalinn á jörðinni Syðsta koti rétt utan við Sandgerði. Þar var lítill sumarbústaður og Pétur mágur var byrjaður að byggja annan bústað við hliðina á þeim gamla en framkvæmdum lauk þegar hann féll allt of fljótt frá árið 2004. Við Sigrún ákváðum svo árið 2021 að byggja við gamla bústaðinn og byggja í leiðinni fullkomið hljóðver en við Ásmundur sonur minn höfum rekið hljóðverið Paradís síðan 2012, vorum með það á Höfðabakka í Reykjavík. Framkvæmdum lauk í fyrra og við gátum flutt inn, hér líður okkur afskaplega vel.“
Alinn upp inni í hljóðveri
Hljóðupptökumaðurinn byrjaði fljótt að blunda í Jóhanni. „Ég hef verið inni í stúdíóum síðan árið 1979 þegar Mezzoforte tók upp fyrstu plötuna sína. Ég fékk strax áhuga á þessum málum og við höfum auðvitað tekið upp plötur úti um allan heim en sömuleiðis kom ég mér upp smá aðstöðu heima hjá mér og var að bauka við þessi mál. Hér áður fyrr voru græjurnar sem voru notaðar inni í stúdíóum mjög dýrar en í dag þegar þetta er allt komið inn í tölvur, er kostnaðurinn miklu viðráðanlegri. Segja má að það sé stúdíó inni á öðru hverju heimili í dag og gæðin eru í raun lygilega góð en jafnast að sjálfsögðu ekki við fullbúið og gott stúdíó. Það var gaman að geta hannað þetta stúdíó sem við nefndum eftir einni af hljómsveitum Péturs, Paradís, nákvæmlega á þann máta sem við töldum að væri best. Hér getur hljómsveit verið öll að spila í einu, allir eru bara með sín heyrnartól og andinn verður alltaf mjög góður. Ég segi oft í gríni að Pétur er hér með okkur þegar góðir hlutir eru að gerast í tónlistarsköpun,“ segir Jóhann.
Spilar bassann í þínu lagi
Ef nafninu Jóhann Ásmundsson er slegið upp á Google, munu fleiri upplýsingar koma fram um bassaleikarann Jóhann, heldur en upptökumanninn. „Við höfum alltaf litið þannig á málin hjá Stúdíó Paradís, að öll vinnan er verðlögð á sama máta, hvort sem ég er að taka upp söng t.d., spila sjálfur bassann inn á viðkomandi lag eða hljóðblanda í lokin. Ég held að þetta hafi gefið góða raun og ég hef fengið fullt af tónlistarmönnum til mín í upptöku, sem finnst frábært tækifæri að fá mig, bassaleikara Mezzoforte, til að vinna að lagi viðkomandi og spila bassann inn. Ég hef auðvitað mikla reynslu af bassaleik og svo er Ási sonur minn, mjög góður trommuleikari svo þar með er allavega kominn ágætis grunnur. Oft spilar viðkomandi tónlistarmaður á gítar og syngur og eftir það er eftirleikurinn í raun auðveldur. Við þekkjum auðvitað alla bestu tónlistarmenn landsins og oftar en ekki eru þeir með aðstöðu heima hjá sér til að spila sitt hljóðfæri inn á upptökuna, heiman frá sér. Það er svo stór breyting í þessum upptökuheimi í dag, -stúdíóin eru orðin svo færanleg. Samt mun aldrei neitt koma í staðinn fyrir gott og rúmgott stúdíó þar sem heil hljómsveit getur tekið upp í einu.“
Mezzoforte
Jóhann eignaðist bassa í fermingargjöf en hafði ungur lært á flautu. „Ég gekk í tónlistarskóla sem barn, bæði í almennum tónlistarskóla og í Tónskóla Sigursveins en það var ekki fyrr en um fermingu sem áhuginn kviknaði á einhverju meira en að lesa nótur og spila á flautu. Það voru föðurbræður mínir sem áttu í raun hugmyndina að því að ég myndi fá bassa í fermingargjöf því þeir spiluðu báðir á kassagítar og fannst vanta einhvern sem gæti fyllt inn í á bassa. Ég var mjög glaður með þá gjöf, fann strax að bassinn væri mitt hljóðfæri. Fyrsta hljómsveitin mín er því í raun með þessum föðurbræðrum mínum, ég sogaðist alveg inn í þetta með þeim, við vorum að pikka upp lög og ég æfðist fljótt upp. Upp frá þessu kynnist ég strákum í Réttarholtsskóla sem voru á svipaðri bylgjulengd og ég og höfðu gaman af því að spila tónlist. Þar með byrjar má segja ferillinn en þarna voru strákar eins og Gunnlaugur Briem sem stuttu síðar stofnaði Mezzoforte með mér og öðrum. Eftir grunnskólann fórum við vinirnir á útihátíðina Rauðhettu sem var í Úlfljótsdal og þar kynntumst við Eyþóri Gunnarssyni og Friðriki Karlssyni en þeir voru að spila á þessari útihátíð. Við kynntumst og sáum mjög fljótt að áhugi okkar á tónlist lá algerlega saman. Við höfðum meira gaman af svokallaðri „instrumental“ tónlist [tónlist þar sem ekkert er sungið] og æfðum okkur eins og brjálæðingar á hljóðfærin okkar en ég fór aldrei í neitt sérstakt bassanám. Við byrjuðum að spila saman 1976 og Mezzoforte var stofnuð ári síðar, 1977 og fyrsta platan okkar kom svo út árið 1979. Það var Steinar Berg sem gaf hana út og hann sá strax tækifæri fyrir okkur erlendis og byrjaði að undirbúa jarðveginn. Önnur platan kom út ári síðar og sú þriðja kom út hér á Íslandi fyrir jólin 1982, kom svo út sumarið eftir í Bretlandi en á plötunni var okkar stærsti smellur, Garden Party. Við upplifðum má segja drauminn, bjuggum í Bretlandi árin 1983-85, spiluðum og spiluðum, tókum upp og náðum ansi langt. Að íslensk hljómsveit kæmi lagi svo ofarlega á lista þótti mjög merkilegt á sínum tíma en þetta er á miðju 80´s tímabilinu þar sem Duran Duran, Spandau Ballet og fleiri frábærar hljómsveitir náðu gríðarlegum vinsældum á heimsvísu,“ segir Jóhann.
Vindur úr seglum og Stjórnin
Mezzoforte harkaði eins og áður segir, í rúm tvö ár í Bretlandi en svo fluttu félagarnir heim. Þeir reyndu að auka á vinsældir hljómsveitarinnar með því að fá inn söngvara en hæðum Garden Party varð ekki náð. „Árið 1985 byrjaði söngvarinn Noel McCalla að syngja með okkur og ári síðar reyndum að koma okkur inn á hinn hefðbundnari poppmarkað, áttum nokkur góð lög en þau náðu ekki sömu hæðum og einhvern veginn fór vindurinn úr seglunum og við ákváðum að flytja heim. Túruðum samt áfram gríðarlega mikið, mest í Skandinavíu og Þýskalandi. Við vorum auðvitað dottnir út úr íslenska spilamarkaðinum svo það tók tíma að koma sér aftur að á þeim markaði en svo kom það, áður en ég vissi af var ég farinn að spila með hinum og þessum eins og gengur og gerist í íslenska tónlistarbransanum, spilaði t.d. mikið með Pétri mági mínum. Svona voru næstu ár en árið 1992 gengum við Frissi Karls til liðs við Stjórnina og þá fékk maður að upplifa íslenska sveitaballarúntinn á fullum krafti. Stjórnin var gríðarlega vinsæl hljómsveit og við spiluðum allar helgar og stundum oftar, fyrir kjaftfullum húsum. Nokkrum árum seinna hittist þannig á að mín verkefni með Mezzoforte rákust á við verkefni Stjórnarinnar og ég varð að gefa það síðarnefnda frá mér. Hef síðan þá að mestu spilað með Mezzoforte, hlaupið í skarðið þar sem mín er þörf, og unnið sem hljóðupptökumaður.“
Stjörnuglampi í augum og Paradís
Eins og áður hefur komið fram, var poppgoðið Pétur Kristjáns mágur Jóhanns en Pétri hafði Jóhann kynnst áður en hann kynntist Sigrúnu systur hans. „Ég hef verið u.þ.b. átján ára þegar ég fékk tækifæri á að spila með Pétri og það var rosalegt. Ég var með þvílíkan stjörnuglampa í augunum yfir að spila með þessari stjörnu en það fyndna var að glampinn hvarf strax því Pétur var einstakur maður og öllum leið vel í kringum hann. Stjörnustælar var eitthvað sem Pétur vissi ekki hvað var og ég gleymi ekki hversu erfitt það var þegar hann varð bráðkvaddur alltof snemma árið 2004, þá aðeins fimmtíu og tveggja ára gamall. Sigrún systir hans hafði nefnt nudd- og snyrtistofu sína eftir einni af hljómsveitunum sem Pétur var í, Paradís. Hún hafði beðið bróður sinn um leyfi fyrir því og þegar við feðgar stofnuðum svo stúdíóið árið 2012, kom ekkert annað nafn til greina en Stúdíó Paradís. Þótt Pétur hafi kvatt á sínum tíma þá svífur andi hans pottþétt yfir vötnum hér hjá okkur í Paradís að Syðsta koti,“ sagði Jóhann að lokum.
Viðtal við Jóhann Ásmundsson í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta er í spilaranum hér að neðan.