Barnahátið í Reykjanesbæ
- haldin í níunda sinn.
Barnahátíð verður haldin í níunda sinn í Reykjanesbæ 7. – 11. maí. Margir koma að undirbúningi hátíðarinnar og boðið verður upp á margs konar viðburði fyrir börn og foreldra. Markmið hátíðarinnar er að skapa foreldrum og börnum fjölbreytt tækifæri til frjórrar og gefandi samveru og stuðla þannig að fjölskylduvænum Reykjanesbæ.
Söfnin í bænum og leik- og grunnskólar ásamt öðrum stofnunum sem og íþróttafélög, tómstundafélög og menningarfélög taka virkan þátt í hátíðinni en að auki er öllum bæjarbúum boðin þátttaka.
Stór liður í barnahátíð er Listahátíð barna sem er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og allra leikskóla í Reykjanesbæ. Hátíðin hefur vaxið og eflst með hverju ári og segja má að hún hafi orðið kveikjan að barnahátíðinni þar sem virðing fyrir börnum og störfum þeirra er höfð að leiðarljósi.
Nánari upplýsingar og helsta dagskrá er á vefsíðu hátíðarinnar.