Barnahátíð í Garði á sumardaginn fyrsta
Víðavangshlaup Víðis og skemmtidagskrá í Gerðaskóla
Á morgun, sumardaginn fyrsta, efna Víðismenn til síns árlega víðavangshlaups á Nesfisksvellinum í Garði. Hlaupið hefur verið fastur liður í Garðinum á sumardaginn fyrsta svo lengi sem elstu menn muna, en hlaupið er í mörgum aldursflokkum, leikskólaflokk, pabbaflokk, ömmuflokk ofl., og hlaupið stutt. Í lokin fá svo allir eitthvert lítilræði í „gogginn“.
Í tilefni að 80 ára afmæli Víðis þann 11. maí nk. ákvað stjórn Víðis að efla þennan viðburð og hafa fjölskylduskemmtun í Gerðaskóla strax að loknu hlaupinu. Þangað koma Íþróttaálfurinn og Solla stirða, Friðrik Dór mætir, grillaðar verða pulsur og Svali í boði Samkaup Strax í Garði. Tónlistarskólinn í Garði verður með atriði og hoppukastali og andlitsmálning verða í boði fyrir börnin.
Víðismenn hvetja sem flesta foreldra til að koma með börnum sínum og taka þátt í viðburðinum og halda svo í húsið Sjólyst, hús Unu í Garði, eftir að hátíð í Gerðaskóla lýkur en þar er einnig dagskrá í boði.