Bangsadagar á bókasafninu
Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim 27. október og er Bókasafn Reykjanesbæjar engin undantekning þar sem þessa vikuna er böngsum stillt upp í röðum um allt safnið og áhersla lögð á hinar fjölmörgu bækur bókasafnsins sem fjalla um bangsa.
Að undirlagi PR hópsins, sem er samstarfshópur norrænna bókasafna, hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur á norrænum bókasöfnum síðan 1998. Þessi dagsetning varð fyrir valinu vegna þess að um er að ræða afmælisdag Theodores „Teddy“ Roosevelt, en sagan segir að Roosevelt, sem var mikill skotveiðimaður, hafi eitt sinn þegar hann var á bjarnarveiðum vorkennt litlum, varnarlausum bjarnarhúni og sleppt honum lausum. Washington Post birti skopmynd af þessu atviki sem vakti mikla athygli. Búðareigandi einn í Brooklyn, New York varð svo hrifinn af þessari sögu að hann bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem „Bangsann hans Teddys“ (Teddy's bear). Það má segja að þetta hafi verið upphaf af sigurgöngu leikfangabangsans sem er orðinn vinsæll félagi barna (og fullorðinna) um allan heim.
Í tilefni dagsins er á hverju ári framleiddur sérstakur bókasafnsbangsi af hinum þekkta sænska bangsaframleiðanda Bukowski í Svíþjóð.
Á bókasafninu er vakin athygli á bókum með böngsum í aðalhlutverki og listi með nöfnum á bókum tengdar böngsum er aðgengilegur með því að smella hér.
Heimild og ljósmynd: www.reykjanesbaer.is