Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ballskákin er góður félagsskapur
Jón Eysteinsson t.v. og Guðjón Ólafsson. Guðjón var formaður Ballskákfélags eldri borgara á Suðurnesjum frá stofnun félagsins árið 2009 og þar til nýverið að Jón Norðfjörð tók við formannsembættinu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 11. apríl 2023 kl. 08:36

Ballskákin er góður félagsskapur

Ballskákfélag eldri borgara á Suðurnesjum var stofnað árið 2009 og þar mæta tvisvar í viku hressir karlar og spila billiard og spjalla saman. Á dögunum fór fram Víkurfréttabikarinn í ballskák 2023. Til úrslita léku þeir Jón Ólafur Jónsson og Vilhjálmur Arngrímsson.

Viðureign þeirra félaga var jöfn en til að sigra í mótinu þurfti að vinna tvo leiki. Jón Ólafur vann þann fyrsta en Vilhjálmur jafnaði í öðrum leik. Það þurfti því þriðja leikinn til að fá sigurvegara og þar hafði Jón Ólafur betur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Jón Ólafur með kjuðann í úrslitaviðureigninni.

Víkurfréttir ræddu við Jón Ólaf, Víkurfréttabikarhafa, eftir úrslitaleikinn.

Eru menn duglegir að mæta hingað í billiard?

„Já, ég myndi segja það. Við erum alltaf í kringum tuttugu sem mætum hérna. Þetta er félag sem heitir Ballskákfélag eldri borgara á Suðurnesjum þar sem menn greiða árgjald. Það eru skráðir 36 félagar en að jafnaði eru að mæta um tuttugu manns.“

Er þetta skemmtilegt?

„Já og það er gaman að það eru að koma hér menn sem hafa aldrei spilað áður og hafa sýnt mikla framför. Það er gaman að koma hingað og hittast og þetta er félagsskapur í leiðinni.“

Ballskákfélagið er með aðsetur í Virkjun á Ásbrú. Billiard er amerískur leikur og það er því gaman að aðsetur félagsins er á gamla varnarsvæðinu, þar sem íþróttin var stunduð af kappi á árum áður. Í félaginu eru einnig margir gamlir starfsmenn slökkviliðs varnarliðsins sem þekkja vel til íþróttarinnar.

„Þessi aðstaða hérna hjá okkur er alveg frábær. Við erum með átta borð og ég held að þú þurfir að leita víða til að sjá svona aðstæður,“ segir Jón Ólafur. Hann segir að fyrir Covid hafi þeir fengið heimsóknir af bæði Seltjarnarnesi og úr Grindavík en þær heimsóknir hafi ekki verið teknar upp aftur eftir faraldurinn.

Víkurfréttabikarinn í ballskák er bara eitt af mörgum mótum sem haldin eru yfir árið. Þannig var annað mót síðasta fimmtudag þegar karlarnir tóku þátt í sérstöku páskamóti.

Karlarnir mæta formlega í ballskákina klukkan níu á morgnana. Sumir mæta þó fyrr. Spilað er í einn og hálfan tíma og sumir eru að aðeins lengur. Svo setjast menn niður í kaffispjall og jafnvel vöfflur.

Vilhjálmur Arngrímsson (2. sæti), Jón Ólafur Jónsson (1. sæti), Rúnar Lúðvíksson (3. sæti) og mótsstjórinn Helgi Hólm. VF/pket

Jón forseti

Guðjón Ólafsson, Gaui Sól, var forvígismaður félagsins og fyrsti formaður þess frá árinu 2009 þar til fyrir stuttu að formennskan fluttist til Jóns Norðfjörð úr Sandgerði. Þegar Víkurfréttir heimsóttu karlana í Virkjun á dögunum var nýi formaðurinn kynntur sem Jón forseti, og sagt að Jón hafi viljað breyta titlinum úr formanni í forseta. Allt var þetta í léttum dúr.

Er þetta mikil starfsemi?

„Já, við komum hér tvo morgna í viku. Það er fast en sumir koma þess á milli en Virkjun er opin alla virka daga og þá er hægt að nýta sér aðstöðuna. Það er virkilega gaman að koma hérna og hitta félagana. Þetta er góður félagsskapur. Ég er sjálfur í unglingadeildinni hérna en hér eru menn sem eru komnir hátt á níræðisaldur en bera sig vel og standa sig vel.“

Er ekki gott að hafa svona hitting?

„Góður félagsskapur er hluti af því að lifa góðu lífi og við lífsgæði. Margir eru líka í ýmsu öðru eins og pútti og golfi. Þá eru margir duglegir í líkamsræktinni og halda sér við.“

Jón telur að eldri borgarar á Suðurnesjum séu virkir í félagsstarfi ýmiskonar og hugi vel að heilsunni. Þar hafi heilsuefling Janusar komið sterkt inn. „Ég held að það hafi lífgað upp á lífið og tilveruna og fólki líði betur.“

Kapparnir mæta tvisvar í viku í billiard.