Bakkalábandið sló í gegn á setningu menningardaga í Grindavík
Saltfisksetrið var troðfullt við setningu menningarhátíðar í Grindavík en talið er að yfir 200 manns hafi verið viðstaddir. Petrína Baldursdóttir, formaður bæjarráðs, flutti ávarp og Rósa Signý Baldursdóttir, formaður menningar- og bókasafnsnefndar, setti hátíðina. Í máli þeirra kom fram að markmið skipuleggjandanna með viku sem þessari er að draga fram í dagsljósið sköpunarkraft þann, áræðni og hæfni sem fyrirfinnst í samfélaginu okkar og því var kappkostað að fá Grindvíkinga sjálfa til að reiða fram hlutina.
Síðan tók Bakkalánbandið nokkur lög við feiki góðar undirtektir. Óhætt er að segja að hljómsveitin standi undir nafni því saltfiskur hefur staðið þeim nærri en sveitin saman stendur af sex Vísissystkinum í Grindavík, þ.e. börnum Páls H. Pálssonar, stofnanda Vísis og Margrétar Sighvatsdóttur. Bandið skipa þau Pétur, Páll Jóhann, Sólný, Kristín, Svanhvít og Margrét Pálsbörn og með þeim lék einn af mökunum, Ársæll Másson. Bakkalábandið flutti m.a. Grindavíkurblús við texta Valgeirs Skagfjörð og einnig lag eftir móður þeirra systkina, Margréti Sighvatsdóttur. Þá tók Margrét lagið með börnum sínum, Suður um höfin, við gríðarlegar undirtektir.
Þetta var í fyrsta skipti sem öll sex Vísissystkinin syngja saman opinberlega, segir í frétt á vef Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Fleiri myndir í ljósmyndasafni hér á vf.is og myndband í Sjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is