Baka spýtubrauð yfir eldi
Norræna félagið í Vogum stendur fyrir norrænu söngkvöldi á útivistarsvæðinu Háabjalla, ásamt landgræðslu- og skógræktarfélaginu Skógfelli, sem á Háabjalla og býður upp á að baka spýtubrauð yfir eldi. Þetta verður kl. 20 fimmtudaginn 11. ágúst og eru allir hjartanlega velkomnir.
Gunnar Guttormsson mun syngja lög frá öllum Norðurlöndunum við harmónikuundirleik Sigurðar Alfonssonar. Gunnar hefur verið mjög ötlull að kynna norræna söngva, staðið að útgáfu bóka og hljómplatna, þýtt texta og oft komið fram. Þorvaldur Örn spilar einnig og stjórnar almennum söng laga sem við flest könnumst við með textum á íslensku. Gestir eru hvattir til að taka með lög og texta og flytja sjálfir eða með hinum.
Atburðurinn er hluti af fjölskyldudögum í Vogum.
Hugguleg kvöldstund í skjóli hárra grenitrjáa.
Spáir hæglætisveðri, skýjuðu og þurru.
Elstu trén í Háabjalla eru sitkagreni frá því um 1950 og orðin um 15 m há. Skógfell á þarna nokkra hektara og hefur gróðursett þar síðustu árin ýmsar tegundir sem geta veitt næstu kynslóðum skjól til að syngja í og baka sér brauð, segir í tilkynningu frá aðstandendum.