Bærinn kemur skemmtilega á óvart
- segir Þórdís Ósk Helgadóttir, forstöðumaður Súlunnar
Það voru tólf hæfir einstaklingar sem sóttu um starf forstöðumanns Súlunnar þegar Þórdís Ósk Helgadóttir var ráðin í það starf hjá Reykjanesbæ. Súlan er ný skrifstofa sem opnaði í haust þar sem ýmsir málaflokkar heyra undir, þar má nefna atvinnuþróun, menningarmál, markaðs- og kynningarmál, ferðamál, safnamál og verkefnastofa.
Þórdís Ósk er með BA gráðu í húsgagnaarkitektúr og meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands.
Í starfi forstöðumanns Súlunnar felst meðal annars ábyrgð á innleiðingu verkefnastjórnunar sem stjórnunaraðferð í starfsemi Reykjanesbæjar, ábyrgð á innleiðingu og vinnu með stefnumótun á verkefnasviði Súlunnar og efling og samræming á kynningar- og markaðsmálum bæjarins.
Víkurfréttir litu við á skrifstofu Þórdísar til að forvitnast um hagi hennar en skrifstofan er staðsett í fallegu nýuppgerðu húsi Gömlu búðar í gamla hverfi Keflavíkur.
Starfið gríðarlega spennandi
„Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki við hverju ég mátti búast áður en ég flutti hingað í haust en mér líður eins og ég hafi alltaf búið hérna. Það voru engar kvaðir af hálfu bæjaryfirvalda þegar ég fékk starfið um að ég festi hér búsetu en ég var spurð hvort ég gæti hugsað mér það. Í framhaldi af því ákvað ég að ég kynnast bænum betur með því að flytja í Hlíðahverfið og líkar það mjög vel. Móttökurnar eru með eindæmum góðar sem ég hef upplifað,“ segir Þórdís Ósk Helgadóttir, nýr forstöðumaður Súlunnar og bætir við að starfslýsingin í auglýsingunni hafi strax heillað hana:
„Þegar ég sá stöðuna auglýsta þá fannst mér hún gríðarlega spennandi. Mér fannst ég tengja við alla málaflokka sem eru undir Súlunni og vissi um leið að þetta væri draumastarfið mitt. Ég var á þeim tímapunkti í lífi mínu að mig langaði í ævintýri og mér fannst þessi staða kalla á mig. Þær breytingar var ég tilbúin í, að eignast nýtt heimili og að kynnast nýju samfélagi úti á landi. Ákvörðun um að flytja hingað suður þótti mér ekki erfið. Mér og syni mínum líður mjög vel hér í Reykjanesbæ. Allir hafa tekið mjög vel á móti okkur. Ég á skyldmenni sem eru uppalin hér og hefur verið gaman að endurvekja þau kynni. Já, það er önnur stemning hér en í borginni þó við séum ekki langt frá henni þá erum við á landsbyggðinni þannig séð. Hér er heimilislegt og vingjarnlegt andrúmsloft, passlega langt frá borginni.
Ég er sjálf fædd í Reykjavík en hef einnig alist upp á Álftanesi sem var talin sveit á sínum tíma. Einnig bjó ég í Danmörku í átta ár en þangað flutti ég eftir stúdentspróf og lærði húsgagnahönnun af Dönum enda eru þeir almennt þekktir fyrir fallega og stílhreina hönnun. Listir og skapandi hugsun hefur ávallt fylgt mér og er mér í raun blóð borin enda komin af listrænni fjölskyldu. Ég er spennt að takast á við þau verkefni sem fylgja þessu starfi hjá Súlunni.“
Hvað finnst þér svo um bæinn okkar?
„Bærinn kemur skemmtilega á óvart. Ég hóf störf í miðjum undirbúningi Ljósanætur og fannst aðdáunarvert að fylgjast með því góða samstarfi sem átti sér stað við mótun hátíðarinnar. Mikill metnaður er hjá bæjarbúum og sér maður samheldnina fyrir þessari einstöku bæjarhátið. Ég sá strax að mikill metnaður er lagður í starfsemi menningarhúsa Reykjanesbæjar, þar má nefna Hljómahöllina, Bókasafnið og Duushúsin og er ég bæði spennt og stolt að fá að vinna með stjórnendum þessara húsa við framtíðaruppbyggingu. Reykjanesbær er þekktur fyrir fjölbreytta tónlist og er augljóst að hún endurspeglast í menningu bæjarins. Ásamt tónlist birtist menningin einnig í hinum ýmsu list- og leiksýningum og liggur metnaður á þessum sviðum. Það er augljóst að það er mikill kraftur í fólki bæjarins,“ segir Þórdís Ósk með bros á vör.
Hverju tekurðu eftir?
Þórdís Ósk flutti með þriggja ára son sinn sem unir hag sínum vel með móður sinni í Reykjanesbæ. Sá litli er alveg heillaður af flugvélunum sem fljúga yfir bæinn en þeim hljóðum voru þau ekki vön í Grafarvogi þar sem þau bjuggu. Það er alltaf forvitnilegt að heyra hvað gests augu sjá og heyra í umhverfi sem aðrir íbúar eru orðnir samdauna.
„Það fyrsta sem ég tók eftir voru flugvélarnar sem fljúga yfir hverfið mitt. Eins og ég nefndi áður þá bý ég í nýja Hlíðahverfinu sem er í nálægð við flugvöllinn og erum sjálfsagt í fluglínu. Strákurinn minn er voða hrifinn af flugvélum og finnst æðislegt að fylgjast með þeim. Mesti hávaðinn virðist koma frá orrustuþotunum en þetta er samt ekkert neikvætt og truflar mig ekki, þetta eru bara öðruvísi hljóð sem maður venst,“ segir Þórdís.
Mikill áhugi á körfubolta
„Ég hef mikinn áhuga á körfubolta. Ég nýt þess að fara á körfuboltaleiki og hef verið að fara á leiki hjá báðum liðum Reykjanesbæjar og stefni á að mæta á sem flesta leiki eftir því sem tími gefst. Í minningunni er Reykjanesbær þekktur fyrir körfuboltann og má segja að hann standi ennþá fyrir sínu. Sonur minn hefur sýnt áhuga á íþróttinni og vonandi í framtíðinni verður hann hluti af íþróttmenningu bæjarins. Karfan er áhugamál mitt og bíð ég spennt eftir næstu leikjum,“ segir Þórdís Ósk. Jákvætt viðmót alls staðar
Þórdísi finnst bæjarbúar vingjarnlegir og opnir í viðmóti sem hlýtur að auðvelda henni að kynnast fólki og eignast nýja vini.
„Ég er mikið fyrir útivist og það hefur verið einstaklega gott veður hér í bænum síðan ég flutti en það gerir allt léttara og skemmtilegra. Mér skilst að lognið ferðist einfaldlega hraðar hér í Reykjanesbæ en það á ég eftir að upplifa,“ segir Þórdís kankvís.
„Eitt það helsta sem greip mig er hvað fólk er vingjarnlegt og opið og vil ég þakka fyrir frábærar móttökur í minn garð,“ segir Þórdís þakklát að lokum.