Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bærinn breytist í borg á Ljósanótt
Föstudagur 2. september 2022 kl. 20:42

Bærinn breytist í borg á Ljósanótt

Rannveig L. Garðarsdóttir segir sumarið búið að einkennast af gefandi gönguferðum, ferðalögum innanlands og samveru með fjölskyldunni. Rannveigu, eða Nanný, finnst Ljósanótt gera mikið fyrir bæinn sinn, sem breytist í borg þegar hátíðin gengur í garð. Nanný ætlar pottþétt í árgangagöngunar og á allar myndlistarsýningar hátíðarinnar.

Hvernig varðir þú fyrsta sumarfríinu án takmarkana?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sumarið er búið að einkennast af gefandi gönguferðum, ferðalögum innanlands og samveru með fjölskyldunni. Fyrsta sumarfríið mitt án takmarkana var fjögurra daga gönguferð um Hornstrandir með skemmtilegum hópi fólks á vegum Ferðafélags Íslands þar sem gengið var með fjörum og fjallstindum í góðum félagsskap við refi, yrðlinga og seli og þar var sko gott að vera.

Hvað stóð upp úr sumrinu?

Það sem stóð uppúr í sumar er allt þetta skemmtilega fólk sem ég kynntist í öllum leiðsögu-ferðunum í sumar sem ég fór með í sumar bæði söguferðir um bæinn minn og skoðunarferðir um Suðurnesin og víðar.

Ég á líka ógleymanlega stund frá ferðinni á Hornstrandir, það var þegar við vorum loksins komin uppá topp á Skálakambi í Hlöðuvík á Hornströndum eftir göngu í mikilli þoku og skyndilega hverfur þokan einsog hendi sé veifað og við blasa fallegustu fjöll og firðir sem ég hef nokkru sinni augum litið, þessi stund stóð nógu lengi yfir til að hægt var að festa stundina á filmu en eftir stendur minningin með lyktinni og tilfinningunni sem fylgir slíkri stund

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

Ég á nokkra uppáhalds staði á landinu, einn er Reykjanesviti, ég fer þangað reglulega til að sækja mér jarðtengingu því mér finnst hvergi vera eins stutt í kjarna jarðarinnar og þar.

Meðalfellsvatn í Kjós er annar uppáhaldsstaður, þar eigum við fjölskyldan sumarhús og þar finnst mér vera fallegasta útsýni sem er í boði á suðvesturlandi.

Vatnið stendur norðan við Esjuna og mætti því segja að það sé staðsett á bak við Esjuna og þar nýt ég þess að ganga um ótal gönguleiðir Esjunnar og þreytist seint á að finna nýjar leiðir um þetta magnaða fjall. Einnig finnst mér mjög gaman að ganga hringinn í kringum vatnið sem er 9 km. gangur og er það orðinn stór hluti af heilsulífinu mínu og segir gönguappið Strava að ég hafi ég gengið 22 sinnum þennan hring á þessu ári sem hlýtur að teljast bara nokkuð gott.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Ég hef það fyrir sið að setja mér markmið til lengri og skemmri tíma og ég lít á það sem einskonar leiðarvísi í mínu lífi og ég á eftir að uppfylla nokkur atriði á þessu ári m.a ætla ég sækja fleiri tónleika en ég hef gert undanfarin ár og ég mun skipuleggja gott ferðalag langt út fyrir minn þægindahring.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Mér finnst Ljósanótt gera mikið fyrir bæinn minn því þá breytist bærinn í borg og gaman að sjá og finna alla gróskuna sem er í gangi hjá íbúum bæjarins og einnig er gaman að fylgjast með undirbúningi fyrir hátíðina þar sem ótal margir taka þátt hvort sem það eru skólarnir, menningin eða íþróttir fyrir utan alla hina, mér finnst ég oft finna fyrir hve samtakamátturinn er mikill í bænum í undirbúningi fyrir þennan viðburð.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Ég fer alveg pottþétt í Árgangagönguna og ætla að reyna að skoða allar myndlistarsýningar sem eg kemst yfir og að ég tali nú ekki um tónleikana, mér finnst þetta allt svo spennandi að ég get eiginlega ekki tekið neitt útúr.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Mér finnst erfitt að velja bestu minninguna frá Ljósanótt því ég á mjög margar góðar minningar ekki síst úr þeim ferðum sem ég hef skipulagt og vel því að rifja upp eina af gönguferðunum sem ég stóð fyrir.

Eitt árið græjaði ég sögugöngu í samstarfi við sr. Erlu Guðmundsdóttur prestinn okkar og planið var  að ganga um bæinn með allskonar skemmtilegheitum m.a að koma við í garðinum hjá henni og þiggja kaffi og með-því. Allur undirbúningur gekk vel og svo þegar kom að deginum þá mættu rúmlega 200 manns í gönguna sem liðaðist einsog kröfuganga um bæinn en sr. Erlu brá svolítið í brún þegar við 200 manns gengum inn götuna í garðinn til hennar og var ekki alveg búin að græja meðlæti fyrir 200 manns en allt fór þetta vel og flestir bara ánægðir með gönguna og fóru sáttir heim.