Auðarhópurinn í góðum gír
Konur úr Team Auði, góðgerðarfélagi á Suðurnesjum hafa verið duglegar að safna peningum til margra góðra málefna að undanförnu.
Þær efndu til hlaups á bleika deginum og enduðu hann með kvöldi þar sem hópurinn hittist og endaði á uppboði á vörum frá bleiku slaufunni. Söfnuðust 260 þúsund krónur sem runnu til bleiku slaufunnar.
Þá hefur Auðarhópurinn að undanförnu styrkt börn, konur og karla í krabbameinsbaráttu og félög þeim tengd eins og Kraft.
„Við viljum þakka fjölmörgum aðilum og fyrirtækjum sem hafa stutt okkur í þessum söfnunum. Án þeirra væri þetta ekki hægt. Bestu jólakveðjur til ykkar allra,“ sagði Íris Sæmundsdóttir, ein úr Auðarhópnum.