Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Áttum við virkilega að borga fyrir að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar?
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:28

Áttum við virkilega að borga fyrir að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar?

Guðlaug María Lewis fermdist í Keflavíkurkirkju 8. apríl 1984 og á því 40 ára fermingarafmæli í vor. Prestur var Sr. Ólafur Oddur Jónsson. Fermingarfötin voru keypt í Fataval á Hafnargötunni og  Helga Harðar sá um hárið.

Hvað kemur fyrst upp í hugann?

Hvað þetta var í raun stórt. Mikill undirbúningur og veisla og gjafir, allt fyrir mig. Þetta var alveg stór áfangi á leið inn í fullorðinsárin. Og svo bara góðar minningar um bekkjarsystkinin. Það var auðvitað mikill spenningur í kirkjunni á sjálfan fermingardaginn og aðal áhyggjurnar voru þær að fara nú ekki að hlæja og gera sig að fífli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Það var aldrei nein spurning. Þetta var nánast jafn sjálfsagt eins og að fara upp um bekk. Í 8. bekk fermdist maður, þannig var þetta bara. Auk þess hafði ég verið í sunnudagaskólanum og alltaf haft mína barnatrú.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Því miður verð ég að segja að ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum í fermingarundirbúningnum. Ég hafði haft miklar væntingar um að þetta yrði gefandi og skemmtilegt en upplifunin varð ekki alveg sú. Við vorum stórir hópar saman í fræðslunni og líklega hefur Ólafur Oddur, sá góði maður, átt fullt í fangi með okkur gelgjurnar og verið þeirri stund fegnastur þegar hann gat blessað okkur og kvatt. Ég man líka sérstaklega eftir því hvað við vorum undrandi þegar Ólafur Oddur tilkynnti okkur í einni fermingarfræðslunni að við ættum að borga fyrir að fermast. Áttum við virkilega að borga fyrir að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar? Okkur hefur örugglega fundist að hann ætti bara að þakka fyrir að fá okkur til að taka þessa ákvörðun.

Var haldin veisla?

Já, það var haldin veisla heima sem var nú ekkert voða stór, líklega 30-40 manns. Við vorum tvær frænkurnar sem fermdust sama daginn og því var hádegismatur hjá mér og svo veisla seinnipartinn hjá henni. Eftirminnilegast er nú kannski bara matarundirbúningurinn, allt var heimatilbúið og mig minnir að það hafi verið gerðar tilraunir með nýjungar eins og kjúklingabita sem áttu að bragðast eins og KFC og eitthvað í þá veru.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Já, man vel eftir ýmsu. Ég fékk rúm, skíði, tjald, svefnpoka, stól, lampa og smávegis skart. Ég fékk heilar 6.000 krónur í peningum sem taldist líka frekar lítið á þeim tíma, en þó heldur meira en 500 krónurnar sem ein bekkjarsystir mín fékk og okkur þótti mjög fyndið.

Manstu eftir fermingarfötunum eða greiðslunni?

Ég hafði voða litla skoðun á fermingarfötunum og fór bara í Fataval sem var á Hafnargötunni og keypti eitthvað pils og topp sem var til þar. Ég held að mér hafi ekki einu sinni þótt þetta neitt voða flott föt en það var nú ekkert verið að þvælast til Reykjavíkur til að græja þetta. Ég fór í greiðslu til Helgu Harðar sem var þá vinsæl hárgreiðslukona.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Já, ég er að fara í fermingarveislu hjá einu barnabarni í apríl.