Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ástandið hefur aðeins truflað golfið
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 26. apríl 2020 kl. 20:33

Ástandið hefur aðeins truflað golfið

Guðrún Þorsteinsdóttir starfar sem mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar og í sumar ætlar hún að ferðast innanlands með golfsettið í skottinu ... hún hlakkar til að geta knúsað fólk án þess að vera „sprittuð“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvort ég geri. Sumarið er tíminn.

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

Golfbakterían greip mig fyrir tveimur árum og hefur yfirtekið öll önnur áhugamál. Ástandið hefur aðeins truflað golfið, æfingasvæðið er lokað og golfkennslan liggur niðri um stund en það horfir til betri vegar strax 4. maí. 

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?

Ásbyrgi og Landmannalaugar eru uppáhalds. Ásbyrgi og Landmannalaugar eru fallegustu staðir á landinu að mínu mati og töfrum líkast að koma þangað. Vestmannaeyjar eiga líka stóran hluta í mér enda alltaf gott að koma til Eyja. Á marga góða vini þar sem eru eins og mín önnur fjölskylda og svo er náttúran þar mögnuð og golfvöllurinn frábær. 

Hér á svæðinu er Garðskagaviti í algjöru uppáhaldi og fer ég oft þangað. Sólsetrið, kyrrðin og hafið er engu líkt, mögnuð blanda.

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Stefnan er að spila eins mikið golf og ég mögulega get og lækka forgjöfina enn frekar. Ferðast innanlands með golfsettið í skottinu verður líklega málið.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

Ég væri í golfferð með frábærum hópi kvenna á Spáni núna ef ekki væri fyrir veiruna – svo já, hún hefur sett strik í reikninginn ... en varðandi ferðaplönin í sumar þá finnst mér hvergi betra að vera en á Íslandi á sumrin og njóta bjartra sumarnátta svo ég var ekki með utanlandsferðir planaðar en það er þetta með fjöldasamkomur og tvo metrana sem mun setja strik í reikninginn hjá okkur öllum í sumar.

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

Tilveran fór á hvolf 6. mars síðastliðinn í vinnunni hjá mér þegar aðgerðir vegna veirunnar voru fyrst hertar.  Svo bætti í þegar FS færðist yfir í fjarnám með samkomubanninu en dæturnar stunda nám þar. Ég er reyndar svo heppin að geta enn farið í vinnuna og unnið heima inn á milli. Þetta hefur verið gríðarlegt lærdómsferli og hefur tekið á alla en saman komumst við í gengum þetta og eins skrítið og það hljómar þá er komin regla á óregluna í COVID-lífinu. Ég verð samt að viðurkenna að ég get ekki beðið eftir að geta hitt fólk og knúsað það án þess að vera „sprittuð“.

– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?

Almennt finnst mér fólk virða reglurnar og fara eftir fyrirmælum fyrir utan einn og einn þverhaus en mér finnst margir gleyma sér í matvöruverslunum og ég er ekki undantekning þar. Komst að því í þessu samkomubanni að ég er ótrúlega hlýðin sem er ný reynsla.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Ég vona að við berum þá gæfu að endurskoða gildin okkar í lífinu bæði sem einstaklingar og sem þjóð. Meta enn betur alla litlu hlutina í lífinu og að flýta sér hægt. Við höfum öll fundið á eigin skinni hvað við stjórnum í raun litlu í stóru myndinni og þá skiptir öllu að kunna að slaka á og njóta líðandi stundar.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Það er allt í fjar-alls konar í dag, síminn er mikið notaður, Messenger við fjölskyldu og vini, 3CX, Workplace, Zoom og Teams fyrir fundi í vinnunni og líka fyrir félagslífið, rafrænn Happy Hour og Pub Quiz á Zoom er nýja trendið.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Vildi óska að ég gæti hringt einu sinni enn í Magneu vinkonu mína en hún kvaddi okkur alltof fljótt. Myndi óska henni til hamingju með afmælið og svo myndum við spjalla um alla heima og geima og hlægja saman af hrakförum okkar sjálfra eins og við vorum vanar að gera.

– Ertu liðtæk í eldhúsinu?

Ég verð að vera það svo dæturnar svelti ekki en já, held ég teljist ágætlega liðtæk í eldhúsinu.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Mér finnst skemmtilegast að elda eitthvað nýtt sem ég hef ekki prófað áður og svona „betri mat“ en með einfaldleikann að leiðarljósi. Er reyndar ennþá að æfa mig í að elda nautalund og er að verða nokkuð sleip í því en á eftir að ná betri tökum á nautinu á grillinu.

– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Grillaður humar er númer eitt. Við mæðgur erum mikið með fisk og er saltfiskurinn frá pabba bestur. Mexíkanskur og ítalskur matur er einnig vinsæll svo það verður líka að teljast uppáhalds.

– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?

Ég get ekki hugsað mér að borða súran mat og skordýr.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Kotasælubollur frá Evu Laufey.

– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?

Myndi kaupa avocado og það sem þarf í guacamole og léttsaltaðar flögur með. Alltaf hittari á mínu heimili.

Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali?
Hver er spurningin og svarið við henni?

– Hlýðir þú Víði?

Já.