Ási Friðriks með 100 gönguferðir í Garð
Á fimmtudag 21.ágúst kl. 17.00 ætlar Ásmundur Friðriksson, verkefnastjóri í Reykjanesbæ, að ganga hundruðustu ferðina í Garðinn.
Hann tók þá ákvörðun fyrir ári síðan að ganga 100 ferðir í Garðinn fyrir Ljósanótt 2008. Fyrir nokkru lauk hann við 99 gönguna og hefur verið að undirbúa sig fyrir síðustu ferðina, sem verður farin alla leið.
Ási hefur á ferðum sínum hugsað margt, mest um fjölskylduna, vini og vinnuna. Ási segir „ á göngum mínum sendi ég Sævari vini mínum oft góða strauma ásamt fleira góðu fólki, en við upphaf göngu minnar veiktist hann alvarlega, en hefur nú náð fullum bata. Það er því rétt að ég standi líka við mitt.“
„Þá er það ánægjulegt að gefa Garðbúum persónulega gjöf, sem þeir fæstir vita um, 100 ferðir á 100 ára afmæli sveitarfélagsins“ segir Ási.
Ási sagðist ekki hafa verið viss hvort hann héldi þetta út, hnén kannski ekki nógu sterk til að þola álagið í 1000 km. göngu, en þau ætla að halda eins og staðan er núna í augnablikinu. „Þá hjálpar að vera í F.Í.F. Feitir í formi.“
Ási hefur skorað á fjölskyldu, vini og samstarfsfélaga að ganga með sér í 100 ferðina og ætla margir að verða við þeirri áskorun.
Hann gerir ráð fyrir að gangan taki 1 klst. og 45 mín. fer eftir fjölda þátttakenda. „Gengið verður frá heimili mínu og út í Garð, þar á ég von á strætó frá SBK sem flytur okkur aftur heim en þar bíður súpa og tilheyrandi.“