Arsenal amma
- Gaf fjölskyldunni fótboltaferð í jólagjöf
Garðmærin Soffía Ólafsdóttir fór frekar ótroðnar slóðir þegar jólagjafirnar árið 2011 voru annars vegar. Hún vann sér líklega inn mörg prik hjá börnum sínum, barna- og tengdabörnum enda gjöf Soffíu afar rausnarleg það árið. Hún ákvað að bjóða allri stórfjölskyldunni á knattspyrnuleik í London, en þar leikur liðið sem á hug og hjarta flestra í fjölskyldunni.
„Ég fylgi strákunum mínum. Þeir hafa haldið með Arsenal frá því að þeir voru litlir pollar,“ segir Soffía en faðir þeirra Sæmundur Klemenzson heitinn var þó stuðningsmaður Manchester United. „Þetta var á þeim tíma þegar Arsenal voru sigursælir og pabbi þeirra þóttist halda með Arsenal í léttri stríðni. Seinna kom svo í ljós að hann var Manchester maður, en þeir stóðu áfram með sínu liði.“ Ferðin var farin til minningar um fjölskylduföðurinn Sæmund sem lést árið 2010.
„Það er Hlíðari syni mínum að þakka að mörg barnabörnin styðja Arsenal. Hann var að ota að þeim alls kyns dóti sem hann fékk frá Arsenalklúbbnum í gegnum árin. Þetta hefur því sameinað fjölskylduna að vissu leyti.“ Soffía og Sæmundur áttu saman fjögur börn. Þau eru Ólafur, Hlíðar, Klemenz og Guðjónína.
Soffía segir að hún fylgist lítillega með fótboltanum en annað slagið kíki hún á leiki í sjónvarpinu þegar strákarnir hennar eru að glápa. Alls fóru 26 manns á vegum Soffíu í ferð sem Arsenal klúbburinn á Íslandi stóð fyrir. 240 manns fóru frá Íslandi að sjá leik Arsenal og QPR á Emirates leikvangi þeirra Arsenal-manna.
Fengu ekki fleiri jólagjafir
Soffía hafði heyrt af því að Arsenal klúbburinn á Íslandi ætti 30 ára afmæli og farin yrði ferð af því tilefni. Hún fór þá að huga að því að það gæti verið gaman að fara með fjölskylduna í fótboltaferð. „Þetta er ferð sem maður fer einu sinni á ævinni með fjölskyldunni allri,“ segir Soffía en hún ákvað að fyrst hún hefði efni á að gera þetta skyldi hún láta slag standa. Þó svo að ferðin hafi kostað skildinginn þá var hún hverrar krónu virði í huga Soffíu. „Ég var ekkert að gefa þeim aðrar jólagjafir það árið,“ segir Soffía og hlær. Mikil kátína ríkti þegar barnabörnin opnuðu gjafirnar og einhver þeirra voru töluverðan tíma að átta sig á því að þau væri virkilega að fara að berja eftirlætis fótboltagoðin augum.
Upplifunin var að sögn Soffíu frábær. Að fara á pöbbinn að upplifa menninguna, ef menningu mætti kalla var alveg einstakt að hennar sögn. „Þar var verið að spila og syngja. Svo voru bikarar á staðnum sem hægt var að mynda sig með. Þetta var mikil upplifun og þá sérstaklega fyrir börnin. Þegar komið var á völlinn var sérstakt að sjá þegar leikvangurinn fylltist hægt og bítandi.“
„Sem betur fer var þetta sigurleikur en það var á síðustu stundu sem mínir menn skoruðu sigurmarkið,“ segir Soffía en henni þótti gaman að sjá viðbrögðin hjá fólkinu. „Ég myndi mæla með því að fólk færi á einn svona leik á ævinni. Þetta er alveg toppurinn.“ Sérstaklega segir hún gaman að hafa farið með eldheitum stuðningsmönnum og upplifa þeirra gleði og ástríðu á leiknum. Nokkrir fjölskyldumeðlimir eru farnir að skipuleggja ferð á Arsenal leik á næsta ári þar sem dóttursonur Soffíu fermist. „Fyrir mörgum árum þá talaði hann um að hans heitasta ósk væri að fá í fermingargjöf ferð á Arsenal leik og það hefur svo sannarlega ekki breyst þó þessi ferð hafi verið farin, heldur bara styrkst ef eitthvað er.“
Hópurinn fór í sérstaka skoðunarferð þar sem leikvangurinn var skoðaður. Þar er farið í búningsklefa, blaðamannastúkur og fleiri sérstaka staði sem almennt eru ekki opnir fyrir áhorfendur. Hópurinn borðaði á veitingastað á leikvellinum og þar kom m.a. Ray Parlour, fyrrum leikmaður liðsins og heilsaði upp á Íslendingana.
Fjörugra er áramótaskaupið
„Það er svo gaman að fylgjast með umstanginu í kringum þetta. Enda mikið gert úr þessu hjá Englendingum,“ segir Soffía en hún getur vel hugsað sér að fara aðra slíka ferð í góðra vina hópi. Ferðin tókst með miklum ágætum en Soffía lofar skipulag aðdáendaklúbbsins sérstaklega.
Meira var gert en að horfa á fótbolta en fjölskyldan skellti sér á sýninguna um Konung ljónanna sem sýnd hefur verið við frábærar undirtektir í fjölda ára. Tíminn var einnig nýttur til þess að versla og njóta lífsins í Lundúnarborg. „Samvera með sínu fólki skapar frábærar minningar og t.d. á Gamlárskvöld var sýnt myndband frá Arsenal-ferðinni en öll fjölskyldan var heima hjá mér og höfðu allir mjög gaman af og var mikið hlegið, já meira en af Áramótaskaupinu,“ segir Soffía létt í bragði.
Soffía hefur unun af því að ferðast og fyrirhuguð er ferð með fjölskyldunni til Dubai en áður hafa þau farið í siglinu um Karabíahafið. „Maður á að njóta lífsins á meðan það er mögulegt,“ segir Arsenal-amman Soffía að lokum.
Testi: Eyþór Sæmundsson - Myndir: Ólafur Sæmundsson