Árni bæjarstjóri kominn á Facebook og Jón Gnarr í vinahópnum
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ er kominn á Facebook samskiptasíðuna og þannig kominn í mjög stóran hóp Íslendinga sem er þar. Eftir aðeins rúman sólarhring á Fésinu er Árni kominn með um 500 vini, þar á meðan Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík.
„Kæru vinir, Gleðilegt ár. Eftir mikla hvatningu hef ég látið verða af því að mæta á þessa síðu. Aðeins til að rýna heilt, deila góðum hugsunum og jákvæðum straumum. Stöndum saman um það,“ sagði Árni í sinni fyrstu færslu á Facebook.
Aðspurður um hvort Jón Gnarr, borgarstjóri og oddviti Besta flokksins í höfuðborginni væri ekki meðal Facebook-vina hans játaði Árni því og svaraði spurningu VF um það á þennan hátt: „Orðið „vinur“ höfðar mjög til mín og nú trúi ég því að allir þessir 470 sem hafa tekið mér vel fyrsta sólarhringinn séu sannarlega „vinir“ mínir. Vinur er sá sem ræður manni heilt, er hreinskilinn en stígur ölduna með manni í ólgusjó og nýtur stuðnings míns sömuleiðis. Þess vegna er ég á FB. Já Jón Gnarr er slíkur vinur!“